Innlent

Ekki tókst að kveikja Þrettánda­brennu á Ægi­síðu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Aðeins náðist að kveikja í lítilli glæðu í bálkestinum niðri á Ægisíðu í tilefni af Þrettándanum.
Aðeins náðist að kveikja í lítilli glæðu í bálkestinum niðri á Ægisíðu í tilefni af Þrettándanum. vísir

Ekki tókst að kveikja upp í bálkesti niðri á Ægisíðu sem kveikja átti í í kvöld í tilefni af Þrettándanum. Það sé vegna þess að illa hafi gengið að bera eldivið á bálköstinn í dag vegna veðurs. Þetta segir Hörður Heiðar Guðbjörnsson, skipuleggjandi brennunnar og verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.

Búið átti að vera að kveikja í bálkestinum þegar fréttamann Stöðvar 2 bar að garði fyrir kvöldfréttirnar rétt eftir kl. 19:30 en þá hafði gengið illa að kveikja í. Hópur fólks hafði gengið með kyndla frá Melaskóla að Ægisíðu en flestir brennugestir fóru að tínast heim upp úr klukkan sjö þegar ekkert hafði gengið í kveikjutilraunum segir Hörður í samtali við fréttastofu Vísis laust upp úr hálf átta.

Hann segir að timbrið sé líklega allt of blautt eftir rigningar dagsins og að eldsneytið sem búið hafi verið að hella yfir bálköstinn hafi líklegast skolað í burtu. „Það kom mikil úrkoma hérna seinnipartinn eftir að olían var sett á þannig að hún hefur bara lekið af og það náðist aldrei upp eldur.“

Það er þó smá logi í kestinum en skipuleggjendur bíða nú eftir að geta slökkt í loganum. Hörður segir þó að aldrei hafi náðst upp neinn almennilegur eldur í kestinum. Þá hefur fréttastofu einnig borist ábendingar um að flugeldasýning sem halda átti samhliða brennunni á Ægisíðu hafi ekki gengið eftir. 


Tengdar fréttir

Sautján ára­móta­brennur á höfuð­borgar­svæðinu

Sautján áramótabrennur verða á höfuðborgarsvæðinu og verður tendrað í flestum þeirra klukkan hálf níu annað kvöld. Þrjú skotsvæði fyrir flugelda hafa verið sérstaklega afmörkuð í Reykjavík á gamlárskvöld eða á Skólavörðuholti þar sem verður að hluta til lokað fyrir umferð, á Klambratúni og Landakotstúni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×