Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, hefur svarað gagnrýni Guðmundar Hauks Jakobssonar um skort á viðhaldi við Blönduósflugvöll. Hann segir ákvarðanir um þjónustustig eða uppbyggingu innanlandsflugvalla vera í höndum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Guðmundur birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði Isavia ekki tryggja það viðhald sem til þarf til þess að flugvöllurinn væri nothæfur sem sjúkraflugvöllur. Íbúar á svæðinu hafi barist fyrir því í mörg ár að flugvöllurinn sé í lagi þar sem það væri ekki einungis öryggisatriði fyrir þá heldur einnig alla þá sem eiga leið þar um.
Sjá einnig: Segir Isavia ekki ráðast í nauðsynlegar úrbætur á Blönduósflugvelli
„Við bara skiptum ekki máli. Þeir vilja að þessi flugvöllur leggist af og þeir þurfi ekki að eyða krónu í hann,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi í gær.
Isavia sýnir sjónarmiðunum skilning
Í svari Guðjóns kemur fram að Isavia skilji mjög vel þau sjónarmið sem Guðmundur setur fram í færslunni. Þó sé mikilvægt að leiðrétta misskilninginn og að það sé skýrt að það sé ekki Isavia sem beri ábyrgð á þeim ákvörðunum sem Guðmundur nefnir.
„Það er mikilvægt að öllum sé það ljóst að það er ekki Isavia sem tekur ákvarðanir um þjónustustig eða uppbyggingu innanlandsflugvalla á Íslandi heldur er það samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Við hjá Isavia skiljum mjög vel þau sjónarmið sem koma fram í færslunni þinni en á sama tíma er mikilvægt að staðreyndum sé haldið til haga.“
Tilefni færslu Guðmundar var rútuslys sem varð skammt frá Blönduósi á föstudag. Þar hafi nauðsyn flugvallarins sannað sig enn og aftur og það gæti bjargað mannslífum að hafa hann í lagi þar sem sjúkraflug væri bæði ódýrara og hraðvirkara en þyrluflug. Þegar hver mínúta skipti máli gæti mikið verið í húfi.
„Það er ekki nóg að við séum með öflugt slökkvilið, björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn og þar fram eftir götunum ef við komum svo ekki stórslösuðum einstaklingum frá okkur,“ sagði Guðmundur.