Topplið Álaborgar er taplaust í dönsku úrvalsdeildinni eftir áramót en liðið gerði í kvöld jafntefli við Lemvig-Thyborøn, 22-22.
Staðan var jöfn 11-11 í hálfleik og spennan var sú sama í síðari hálfleik. Heimamenn i Lemvig-Thyborøn jöfnuðu metin er nokkrar sekúndur voru eftir.
Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk og gaf fimm stoðsendingar en Ómar Ingi Magnússon var ekki í leikmannahópi Álaborgar. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.
Álaborg er með sex stiga forskot á toppi deildarinnar.
Þráinn Orri Jónsson komst ekki á blað hjá Bjerringbro/Silkeborg er liðið vann stórsigur á Mors-Thy, 20-32. Bjerringbro/Silkeborg er í 3. sæti deildarinnar með 25 stig, tveimur stigum frá Holstebro í öðru sætinu.
Elverum vann fimm marka sigur á Kolstad, 32-27, eftir að hafa verið 14-12 undir í hálfleik í norska boltanum. Sigvaldi Guðjónsson skoraði fimm mörk en Eleverum er með fjögurra stiga forskot á toppnum.
Kristianstad vann eins marks sigur, 22-21, á Lugi í sænska boltanum í handboltanum. Ólafur Guðmundsson komst ekki á blað og Teitur Örn Einarsson var ekki í leikmannahópnum hjá Kristianstad.
Þeir eru í 3. sæti deildarinnar.
