Umfjöllun: Fram - KA/Þór 23-30 | KA/Þór gerði sér lítið fyrir og lagði Fram í Meistarakeppni HSÍ

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
KA/Þór vann Fram í Meistarakeppni HSÍ í dag.
KA/Þór vann Fram í Meistarakeppni HSÍ í dag. Vísir/HAG

KA/Þór eru meistararmeistaranna eftir stórkostlegan leik gegn Fram í Safamýrinni í dag. Akureyringar leiddu með sjö mörkum í hálfleik, 10-17 og fögnuðu að lokum öruggum sjö marka sigri, 23-30.

Úr leiknum í dag.Vísir/HAG

KA/Þór byrjaði leikinn strax frá fyrstu mínútu af miklum krafti, spiluðu þétta vörn og voru agaðar sóknarlega. Liðið leiddi með fimm mörkum eftir fyrsta stundarfjórðunginn og Stefán Arnarsson, þjálfari Fram, tók þá leikhlé í stöðunni 4-9. Það leikhlé hafði lítið að segja, Akureyringar höfðu öll tök á leiknum í fyrri hálfleik.

Fram náði ekki að spila sinn hraða leik eins og þeim líður best, gestirnir komu í veg fyrir hraðaupphlaupin og voru fljótar tilbaka. Sjö mörk skyldu svo liðin að í hálfleik, 10-17.

Framarar byrjuðu síðari hálfleikinn betur, þéttu vörnina og KA/Þór skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu 14 mínútunum. Fram saxaði þá á forskotið og breytti stöðunni í 16-19. Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs tók þá leikhlé sem skilaði sér. KA/Þór fann taktinn á ný og sigldi heim gríðalega sterkum sigri á meistaraliði Fram, 23-30.

Af hverju vann KA/Þór?

Þær spiluðu frábæran handbolta í 50 mínútur í dag, varnar og sóknarlega. Þeim tókst að koma í veg fyrir að Fram næði að spila sinn leik, lokuðu vel á Steinunni Björnsdóttur sóknarlega og mættu vel út á móti Ragnheiði Júlíusdóttur. Liðið mætti líka uppfullt af sjálfstrausti og ætlaði sér allan tímann þennan sigur.

Hverjar stóðu upp úr?

Rut Jónsdóttir sýndi okkur í dag hversu magnaður leikmaður hún er. Hún tekur sóknarleik liðsins á annað level. Skorar mörk og býr til mikið fyrir liðsfélaga sína. Fimm mörk frá henni í dag.

Martha var frábær í liði KA/Þór að venju.Vísir/HAG

Martha Hermannsdóttir var markahæst með sjö mörk, átti einnig mjög góðan leik.

Matea Lonac lét lítið fyrir sér fara í fyrri hálfleik en varði vel í síðari hálfleik. Leit mjög vel út.

Fram liðið leit því miður ekki nógu vel út í þessum leik en Ragnheiður Júlíusdóttir skilaði sínu, skoraði 7 mörk þó úr 14 skotum og skapaði mikið fyrir stelpurnar í kringum sig.

Kristrún Steinþórsdóttir átti fínan leik, varnarlega er hún sterk en kom vel inní sóknina í dag einnig.

Hvað gekk illa?

Það vantaði allan neista í Fram liðið. Varnarlega voru þær ólíkar sér, markvarslan engin í fyrri hálfleik og heilt yfir var hún slök. Sóknarlega voru þær óagaðar og héldu ekki haus.

Fram var í vandræðum á báðum endum vallarins í dag.Vísir/HAG

Hvað er framundan?

Nú er það Olís deildin sem tekur við, fyrsta umferðin er næstu helgi. Fram tekur á móti HK á föstudaginn og KA/Þór fer til Vestmannaeyja þar sem liðið mætir ÍBV á laugardeginum.

Andri Snær á hliðarlínunni ásamt leikmönnum sínum.Vísir/HAG

Andri Snær: Ég er mjög stoltur af liðinu

„Þetta var frábær leikur hjá okkur og við áttum sigurinn skilið“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs.

„Ég er mjög stoltur af liðinu, við spiluðum frábæra vörn, fengum góða markvörslu og hlupum mjög agað upp. Fengum smá bakslag í sóknina í byrjun seinni en náðum þessu aftur í gang“

KA/Þór missti aðeins tökin á leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Andri segist ekki hafa haft áhyggjur af því að Fram næði yfirhöndinni

„Nei það fór ekkert um okkur, Fram liðið er nátturlega með frábært lið eins og allir vita. Við þurftum bara að finna betri lausnir og betra flæði í okkar aðgerðir. Vörnin var frábær allan leikinn og það taldi drjúgt í leiknum“

Nú fer deildin að hefjast, Andri er spenntur fyrir komandi tímabili sem þjálfari í efstu deild í fyrsta skiptið. KA/Þór ætlar sér að berjast um alla titla sem í boði eru

„Við erum búnar að fókusa mikið á okkar hluti og gera það vel. Við erum með gott sjálfstraust eftir undirbúningstímabilið. Þetta verður hörkudeild núna, öll liðin eru búin að styrkja sig töluvert. Það verður frábær kvennahandbolti spilaður í vetur, við erum allavega mjög spennt“ sagði Andri að lokum

Hildur var tekin föstum tökum í dag.Vísir/HAG

Hildur Þorgeirs: Rut er leikmaður á öðru gæðastig

„Við náum ekki upp varnarleiknum okkar sem hefur alltaf verið okkar styrkleiki og þá fáum við ekki hraðaupphlaupin“ sagði Hildur Þorgeirsdóttir, leikmaður Fram.

„Ég verð bara að hrósa KA/Þór, þær voru drullu góðar í dag og áttu þetta skilið“

Hildur segir að ekkert vanmat hafi verið innan Fram enda sé KA/Þór komið með töluvert sterkara lið núna en þegar liðin mættust í bikarúrslitunum í mars. Hildur segir að Rut Jónsdóttir sé leikbreytirinn í þessu liði

„Alls ekki vanmat, við ætluðum okkur að taka þennan titil. Þær eru nátturlega komnar með gríðalega sterkt lið. Ég verð líka bara að hrósa Rut, hún er leikmaður á öðru gæðastigi. Það sést, ekki bara á mörkunum, líka færunum sem hún býr til fyrir aðra, það er eftirsóknarvert.“

„Hennar atvinnumannaferill segir það líka hversu góð hún er, mér finnst hún ekki alltaf fá það hrós sem hún á skilið. Hún er bara gríðalega góður leikmaður.“

Fram er spáð efsta sætinu í Olís deildinni í vetur, Hildur segir það alveg raunhæft en liðið saknar að sjálfsöðgu Karenar Knútsdóttur og Þóreyjar Rósu Stefánsdóttur.

„Það má vænta þess sama af okkur og síðustu ár, við ætlum að vera á toppnum. Við höfum styrkt okkur en ég ætla ekki að ljúga neinu, við söknum þeirra gríðalega. Þær sitja uppí stúku núna en ég hefði vilja hafa þær inná vellinum“ sagði Hildur að lokum

KA/Þór fagnaði vel og innilega í leikslok.Vísir/HAG

Rut Jóns: Við getum vonandi strítt stóru liðunum í vetur

„Það er geggjað að byrja á að spila um titil, ég geri mér grein fyrir að þetta sé ekki sá stærsti en ótrúlega gaman og ég held að þetta sé sá fyrsti í sögu KA/Þórs“ sagði Rut Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs, hæstánægð með að vinna titil í sínum fyrsta leik með félagsliði á Íslandi í 12 ár.

„Við vorum ótrúlega fókuseraðar allan tímann. Þetta eru svo duglegar stelpur og flottir karakterar, þær voru á fullu allan tímann og það skilaði sér að lokum“

Rut kemur ný inní KA/Þór liðið, hún heillast af hópnum og segir að liðið ætli sér stóra hluti á tímabilinu

„Mér finnst við vera með góða blöndu af ungum og efnilegum stelpum og svo erum við nokkrar aðeins eldri og reyndari, þetta er mjög góð blanda“

„Þær eru búnar að vera ótrúlega duglegar að æfa síðustu mánuði meðan engin handbolti hefur verið. Ég hef einmitt heyrt að þær séu allar búnar að bæta sig, vonandi eru þær þá búnar að taka næsta skref og við getum vonandi strítt stóru liðunum í vetur“

Rut lék síðast í N1 deild kvenna árið 2008 en þá með HK. Eftir farsælan atvinnumannaferil tekur hún slaginn í Olís deildinni í vetur og er spennt fyrir komandi tímabili

„Þetta er ótrúlega gaman, ég var 17 ára þegar ég spilaði hérna síðast. Ég vissi ekkert alveg hvað ég væri að fara út í og auðvitað þarf ég að aðlagast en mér lýst ótrúlega vel á þetta“ sagði Rut spennt fyrir tímabilinu í Olís deildinni

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira