Hver mega æfa, hvað má æfa og hvar má æfa íþróttir á höfuðborgarsvæðinu í dag? Upplýsingar um það hafa verið misvísandi og staðan er óskýr.
Í reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi í dag eru íþróttir sem krefjast mikillar nálægðar eða snertingar við aðra bannaðar á höfuðborgarsvæðinu, til 3. nóvember. Á fundi ÍSÍ og íþróttasérsambandanna með fulltrúum heilbrigðisyfirvalda í gær var niðurstaðan sú að íþróttalið gætu æft, en að hvert sérsamband þyrfti þó að fá samþykktar æfingareglur. Virða þyrfti tveggja metra reglu á æfingum og 20 manna fjöldatakmörk, auk þess sem að fólk mætti ekki deila bolta eða öðrum áhöldum.
Í gærkvöld kom aftur á móti fréttatilkynning frá almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins þess efnis að öll íþróttamannvirki og sundlaugar á vegum sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins yrðu áfram lokuð. Það gæti þó breyst fljótlega.
Þetta þýðir að félög eins og Valur, sem eiga sín íþróttamannvirki, geta stundað æfingar að uppfylltum ströngum skilyrðum en félög sem treysta á mannvirki í eigu sveitarfélaganna þurfa að bíða enn um sinn.
„Mikilvægast að menn vandi sig“
Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, sagði við Vísi að markmiðið væri að vernda skólasamfélagið. Vegna þess hve misvísandi upplýsingar hefðu verið í gær þyrftu íþróttahreyfingin og sveitarfélögin tíma til að ráða ráðum sínum fyrir opnun íþróttamannvirkja:
„Þetta er þannig verkefni að það þarf að setjast niður og útfæra þetta. Eins og margoft hefur komið fram er baráttan við þessa blessuðu veiru langhlaup, svo það skiptir ekki öllu máli hvort að 1-2 dagar líði áður en menn finna niðurstöðuna. Mikilvægast er að menn vandi sig við ákvarðanatökuna,“ segir Jón Viðar.
Í fyrrgreindri fréttatilkynningu sem send var út í gær sagði að ákvörðunin yrði endurskoðuð að viku liðinni, í takti við álit sóttvarnalæknis. Jón Viðar segir þau tímamörk þó ekki heilög:
„Ef að menn komast að einhverri niðurstöðu sem talar í takti við þau markmið sem allir eru með, að lágmarka útbreiðslu veirunnar, þá gæti það orðið fyrr.“