Innlent

Leggur aftur til að dreifing á ösku verði gerð frjáls

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Fundur á Alþingi
Fundur á Alþingi

„Það er skoðun mín að hver eigi að fá að ráða sínum næturstað. En einhverra hluta vegna erum við með mjög strangar reglur þegar kemur að því að ráða sínum næturstað inn í eilífðina,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um störf þingins á Alþingi í morgun.

Bryndís hefur nú í annað sinn lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Í því er lagt til að dreifing á ösku verði gerð frjáls. Jafnframt er lagt til að ekki verði kveðið á um skyldu að grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði vandamanna.

Óskaði hún eftir því að fá að mæla fyrir frumvarpinu á Alþingi sem allra fyrst. 

Bryndís benti á að sífellt fleiri velji að láta brenna sig í stað þess að jarðsetja og sagði ríkisvaldið hafa ákveðið að það skuli gert í kirkjugörðum. „Við getum sótt um að fá að brenna líkamsleifar okkar og þá skuli þær jarðsettar með þar til gerðum hætti. Það er sem sagt nánast ómögulegt að fá að renna saman við hafið eða fjöllin þótt það kunni að vera það sem við helst óskum,“ sagði hún.

„Ég hef lítinn skilning á því að ríkisvaldið og stjórnsýslan þurfi að haga til um þessi mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×