Fram hefur komið að tilkynningum vegna barnaverndarmála hefur fjölgað um 10% milli ára hjá Barnavernd Reykjavíkur. Málin eru nú orðin alls um 5000.
Í Kópavogi eru tilkynningar til barnaverndar tæplega 20% fleiri frá janúar til október en á sama tíma í fyrra og eru þær alls 1039 á tímabilinu.
Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsvið Reykjavíkurborgar segir að alls staðar sé fjölgun mála.
„Almennt hefur tilkynningum til barnavernda fjölgað mjög á landsvísu eða um 14%,“ segir Regína.
Hún segir að vegna fjölgunar mála hafi tvær nýjar barnaverndardeildir verið stofnaðar hjá borginni í vor.
„Þar leggjum við áherslu á börn af erlendum uppruna og erum að sinna þeim betur og hins vegar börn sem búa við ofbeldi. Síðan erum við með félagsráðgjafa á þjónustumiðstöðum sem fara inná heimili þar sem ofbeldi kemur upp,“ segir Regína.
Regína segir að málin séu af ýmsum toga.
Það er þessi spenna á heimilum og ofbeldi, vanræksla og nágrannar eru líka tilkynna í miklu meira mæli en áður um vanrækslu,“ segir Regína.
Hún telur að það þurfi að huga sérlega vel að ungmennum í hópnum.
„Það er órói í ungmennahópnum, ég hef miklar áhyggjur af unglingum í þessari stöðu og ég held að við verðum að vera mjög mikið á vaktinni gagnvart þessum aldurshópi,“ segir Regína.