W.O.M.E.N. sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem samtökin skoruðu á Reykjavíkurborg að taka til skoðunar að veita Fjölskylduhjálp ekki fjárstuðning á næsta ári vegna ásakana um að félagið hafi mismunað fólki á grundvelli trúarbragða og þjóðernis. RÚV greindi fyrst frá.
Fyrr í vikunni greindi fréttastofa frá því að fyrrverandi sjálfboðaliði hjá Fjölskylduhjálp Íslands hafi ákveðið að hætta að starfa með samtökunum eftir að hún varð vitni að mismunun á grundvelli trúarbragða við úthlutun matvæla. Nokkrir fyrrverandi og núverndi skjólstæðingar hafa sakað formanninn um niðurlægjandi framkomu gagnvart sér.
Reynist ásakanir réttar brýtur það gegn mannréttindastefnu borgarinnar
„Við sáum þessa yfirlýsingu frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna og tökum hana auðvitað alvarlega. Þetta eru alvarlegar ásakanir sem ber að taka alvarlega,“ segir Heiða Björg í samtali við fréttastofu.
Hún segir að þeim félögum sem hljóti styrki frá Reykjavíkurborg beri að fylgja mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Að sögn Heiðu hefur Fjölskylduhjálp fengið 2,5 milljóna króna styrk frá Reykjavíkurborg.
„Ef þetta er satt það sem þarna kemur fram þá er það auðvitað ekki í samræmi við hana, en ég hef auðvitað ekki séð þeirra viðbrögð,“ segir Heiða.
„Þau eru auðvitað að vinna mjög mikilvægt starf með því að gefa fólki sem á þarf að halda mat. Við höfum styrkt það,“ segir Heiða.
Hún segir engar kvartanir hafa borist Reykjavíkurborg formlega en hún hafi séð og fylgst með umræðunni sem farið hefur fram um Fjölskylduhjálp undanfarna daga.
„Um leið og fram er komin ályktun eða annað gagn þá höfum við það til hliðsjónar og munum skoða þetta vel í framhaldinu,“ segir Heiða.