Skoðun

Fimm­tíu gráum skuggum varpað á há­lendi Ís­lands

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Frumvarp umhverfisráðherra til laga um Hálendisþjóðgarð í boði ríkisstjórnar Íslands mun seint geta talist til rómantískrar og ómótstæðilegrar lesningar. Fimmtíu blaðsíðna lagafrumvarpið ásamt greinargerð með frumvarpinu, þar sem orðið „ráðherra“ kemur 75 sinnum fyrir, varpar að minnsta kosti fimmtíu skuggum á samstöðu þjóðarinnar um yfirráða- og umgengnisrétt hálendisins. Samþykkt í óbreyttri eða lítið breyttri mynd mun það sitja í þjóðinni um ókomna tíð.

Gráu skuggarnir

Allur almenningur hefur skilning á því að bera skuli virðingu fyrir hálendinu, njóta þess, ganga vel um það og nýta það á skynsamlegan hátt. Frumvarpið sem nú er lagt fram af umhverfisráðherra ber ekki saman við skilning almennings.

Í átta köflum frumvarpsins og greinargerðinni sem fylgir má finna á fimmtíu blaðsíðum svaðalegar lýsingar á hugarórum umhverfisráðherra, forseta Alþingis og kammerötum í VG. Af greinargerðinni má einnig draga þá ályktun að lítið sem ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda og ábendinga sveitarfélaga, sérfræðinga og almennings við fyrirkomulag fyrirhugaðs Hálendisþjóðgarðs.

Framlagning frumvarpsins á Alþingi fór heldur ekki vel af stað. Það var dapurlegt að sjá forseta Alþingis í ræðustól mæla með frumvarpinu með gamalkunnugum hætti, veifandi höndum og öskrandi með niðrandi hætti, að einungis „grenjandi minnihluti“ væri andsnúinn frumvarpinu. Hátterni sem ekki sæmir forseta Alþingis og er skýrt brot á siðareglum alþingismanna, en þar segir meðal annars að: „Alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“.

Klúður, trúður!

Það er ljóst að útfærslan á háleitum markmiðum frumvarpsins í tíu liðum, hefur gjörsamlega mislukkast og að óþægilega margar af greinunum í frumvarpinu orka mjög tvímælis. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að umhverfisráðherra geti með reglugerð sett reglur af eigin geðþótta: „um dvöl, umgengni og umferð í Hálendisþjóðgarði, þ.m.t. tjöldun og umferð gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda, sem og um umferð vélknúinna ökutækja, báta, skipa, loftfara, flygilda og hvers konar annarra farartækja í þjóðgarðinum“. Auk þessa er ráðherra: „heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum þjóðgarðsins allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins“.

Þær eru fleiri greinarnar sem orka tvímælis í frumvarpinu og margar þeirra bera þess merki að lítið hafi verið tekið mark á þeim ábendingum og athugasemdum sem þó komu fram í hinu svokallaða samráðsferli. Í þeim greinum lagafrumvarpsins þar sem fjallað er um stjórnun, eignarhald, valdheimildir, boð og bönn o.s.frv. kemur fram stjórnlyndi af stærðargráðu sem ekki hefur áður sést hér á landi.

Frumvarpið í þeirri mynd sem að það er nú, varpar fimmtíu blaðsíðna skuggum á hálendi Íslands. Algjört klúður, trúður!

Nú er mál að linni

Samstöðu þjóðar um hálendi Íslands var fórnað í upphafi kjörtímabils vegna ásóknar breyskra manna í völd, breyskra manna sem samþykktu í stjórnarsáttmála að flýta stofnun Hálendisþjóðgarðs, hvernig sem það yrði gert og hvað sem það kostaði, í skiptum fyrir nokkra ráðherrastóla - og bílstjóra.

Þetta eldfima samband stjórnarflokkana hefur þróast líkt og önnur eldfim sambönd vanalega þróast. Þegar líður á slík sambönd, að þá uppgötvar fólk æði margt um sínar eigin þrár og þau myrku leyndarmál sem hinn aðilinn í sambandinu býr yfir. Nú eru hin myrku leyndarmál eins samstarfsflokksins í ríkistjórninni smám saman að opinberast eitt af öðru fyrir hinum ríkisstjórnarflokkunum. Þrá meðlima hinna ríkisstjórnarflokkanna hlýtur þá að vera sú að koma sér út úr þessu eldfima ástarsambandi sem fyrst, áður en stuðningur almennings við þá fuðrar upp. Stjórnlyndið og þær takmarkanir á athafnafrelsi sem kemur fram í þessu lagafrumvarpi sem og öðrum furðufrumvörpum sem koma nú á færibandi frá fylgjendum forseta Alþingis til afgreiðslu þingsins, ættu að vekja með hinum á stjórnarheimilinu þær hugsanir, að nú sé mál að linni í ríkisstjórnarsamstarfinu svo landsmenn þurfi ekki að horfa uppá þessa sorgarsögu lengur.

Höfundur er bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.




Skoðun

Sjá meira


×