Reuters greinir frá þessu og vísar í yfirlýsingu frá framboði Trumps. Þar segir Rudy Giuliani, lögmaður Trumps og fyrrverandi borgarstjóri New York, að framboðið hefði sent réttinum beiðni um að þremur úrskurðum dómstóls í Pennsylvaníu, sem sneru að gildi póstatkvæða í ríkinu, yrði snúið við.
„Beiðni framboðsins snýr að því að fá snúið þremur ákvörðunum sem gerðu lítið úr vernd löggjafans í Pennsylvaníu fyrir svindli með póstatkvæðum,“ segir Giuliani meðal annars í yfirlýsingunni.
Giuliani sagði þá að með beiðninni leitaði framboðið allra mögulegra leiða til þess að fá úrslitum í ríkinu snúið. Ein þeirra væri að láta löggjafarþing ríkisins, sem stjórnað er af Repúblikanaflokknum, að veita Trump þau 20 kjörmannaatkvæði sem féllu í skaut Joes Biden, mótframbjóðanda forsetans, þegar hann vann ríkið með meira en 80.000 atkvæðum.
Hæstiréttur áður hafnað því að snúa úrslitunum
Reuters hefur eftir Joshua Douglas, prófessor í kosningalögum við háskólann í Kentucky, að útspil framboðs forsetans sé lítilvægt. Telur hann að það muni ekki koma í veg fyrir að Biden verði sá sem sver embættiseið forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi.
„Hæstiréttur mun slökkva í þessu með hraði,“ segir Douglas.
Fyrir rúmri viku hafnaði rétturinn kröfu Texas-ríkis um ógildingu úrslita í Georgíu, Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin. Biden vann sigur í öllum ríkjunum. Hæstiréttur vísaði beiðninni frá á þeim forsendum að Texas hefði ekki aðild að málinu, þar sem ekki þótti sýnt fram á lögvarða hagsmuni ríkisins af því að fá niðurstöðu um framkvæmd kosninga í öðrum ríkjum.
Skömmu áður hafði Hæstiréttur hafnað beiðni sem fram kom í málsókn Mikes Kelly, þingmanns Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjanna, um að póstatkvæði í Pennsylvaníu yrðu ekki talin.
Fleiri viðurkenna sigur Bidens
Þann 14. desember síðastliðinn komu kjörmenn hvers ríkis saman og greiddu þeim forsetaframbjóðanda sem vann í ríki þeirra atkvæði sín. Alls tryggði Biden sér 306 kjörmannaatkvæði í kosningunum í upphafi nóvember, en Trump 232. Minnst 270 kjörmannaatkvæði þarf til að tryggja sigur í forsetakosningunum.
Æ fleiri valdamiklir Repúblikanar hafa í kjölfarið viðurkennt sigur Bidens í kosningunum. Ber þar hæst að nefna Mitch McConnell, leiðtoga meirihlutans í öldungadeild Bandaríkjaþings. Frá því að sigur Bidens var ljós hafði hann ekki viljað viðurkenna úrslitin, en Trump forseti hefur ítrekað haldið því fram að brögð hafi verið í tafli og þess vegna hafi hann tapað kosningunum.
Forsetinn hefur þó ekki komið fram með neinar sannanir fyrir staðhæfingum sínum um víðtækt kosningasvindl. Þá hafa lögfræðingar hans heldur ekki getað sannfært dómstóla um að svik og prettir hafi ráðið úrslitum í kosningunum.
Þann 6. janúar næskomandi mun Bandaríkjaþing fara yfir og telja kjörmannaatkvæðin, áður en það staðfestir endanlega úrslit kosninganna. Embættistaka Bidens mun þá fara fram þann 20. janúar 2021.