Það hefur verið annasamt á flugeldasölum um land allt síðustu daga og í morgun var nóg að gera hjá starfsmönnum flugeldasölu Björgunarsveitarinnar Ársæls í Lágmúla við að fylla á fyrir daginn. Sölustaðir björgunarsveitanna eru opnir til fjögur og er búist við að margir mæti til að kaupa sér flugelda.
Þórhallur Friðjónsson sölustjóri í Lágmúla hjá Björgunarsveitinni Ársæl segir söluna á flugeldum hafa gengið vel.
„Vonum framar. Við erum að prófa núna nýtt í ár sem er netsala. Það hefur gengið bara mjög vel og landsmenn búnir að taka mjög vel við sér. Koma fyrr á svæðið og við selt vel en stóri dagurinn er náttúrulega í dag“.
Hann segir jafnan mest að gera á sölustöðunum á gamlársdag. „Við seljum langmest núna eftir hádegi.“
Stór hluti allra þeirra flugelda sem seldir eru eru seldir á gamlársdag. „Það er um tveir þriðju sko. Það rýkur mjög hratt út á sölustöðunum okkar eftir hádegi í dag.“
Ýmsar skotkökur eru vinsælar í ár og segir Þórhallur marga ætla að klára árið með stæl. „Við ætlum að skjóta þessu ári vel upp. Ég ætla nú ekki blóta hérna en þetta ár má eiga sig.“