Enski boltinn

Fresta Liverpool skólanum á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fyrir einn leik liðsins á þessu tímabili.
Leikmenn Liverpool fyrir einn leik liðsins á þessu tímabili. Getty/Robbie Jay Barratt

Ekkert verður að því að Liverpool skólinn verði haldinn á Íslandi í júní en vegna kórónuveirunnar hefur honum verið frestað fram á haust.

„Vegna ferðatakmarkana reynist því miður nauðsynlegt að fresta Liverpool skólanum sem vera átti á Íslandi í júní. Afturelding í samráði við Liverpool, Þór og Liverpoolklúbbinn stefnir á að halda skólann síðar í sumar,“ segir í fréttatilkynningu frá Liverpool klúbbnum á Íslandi.

Ný tímasetning er sett fram með viðvörun um hugsanlegra breytinga vegna þróun mála í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Núna á Liverpool skólinn að fara fram í Mosfellsbæ frá 10. til 12. ágúst og síðan verður farið norður og hann haldinn á Akureyri frá 13. til 15. ágúst.

„Það er algjörlega háð því að létting á ferðatakmörkunum á Íslandi og Englandi hafi gengið eftir og Liverpool telji öruggt að senda þjálfara hingað. Einnig háð því hvort flugsamgöngur verði komnar í eðlilegt horf. Ef óvænt verður ekki öruggt að senda þjálfarana hingað verður skólanum frestað til næsta árs,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu frá Liverpool klúbbnum.

Þeir sem hafa þegar hafa skráð börn í Liverpool skólann geta haldið sæti sínu, en þeir sem óska eftir að afskrá og fá endurgreitt senda tölvupóst með upplýsingum um bankareikning á netfangið liverpool@afturelding.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×