Sport

Þjálfari Patriots sagði nei takk þegar Trump bauð honum Frelsisorðuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bill Belichick með Donald Trump þegar þáverandi NFL-meistarar New England Patriots heimsóttu Hvíta húsið árið 2017.
Bill Belichick með Donald Trump þegar þáverandi NFL-meistarar New England Patriots heimsóttu Hvíta húsið árið 2017. Getty/Jabin Botsford

Bill Belichick, þjálfari New England Patriots, gaf það út í gær að hann ætli ekki að taka við Frelsisorðu Bandaríkjaforseta af Donald Trump.

Belichick segir ástæðuna vera atburðina í síðustu viku þegar óeirðarseggir úr stuðningssveit Donald Trump réðust inn í þinghúsið í Washington DC.

Donald Trump hafði tilkynnt það að Belichick myndi fá Frelsisorðu Bandaríkjaforseta áður en Trump lætur af embætti en Bill Belichick og eigandi New England Patriots hafa hingað til verið miklir stuðningsmenn Trump.

Það er kannski tákn um stöðu Donald Trump að Belichick skuli nú hafna þessu boði hans og það með því að senda frá sér yfirlýsingu.

Í tilkynningunni frá Belichick þá kemur fram að hann sé vissulega hreykinn af því að hafa verið boðið slík viðurkenning enda mikill heiður að komast í hóp með þeim sem hafa fengið Frelsisorðuna í gegnum tíðina.

Belichick segist þó ekki ætla að svíkja fólkið, félagið og landið sem hann elski og það vegi meira en einhver einstaklingsverðlaun.

„Um fram allt þá er ég bandarískur ríkisborgari sem ber mikla virðingu fyrir gildum, frelsi og lýðræði okkar þjóðar,“ skrifaði Bill Belichick.

Meðal þeirra sem hafa fengið Frelsisorðu Bandaríkjaforseta frá Donald Trump er bandaríski kylfingurinn Tiger Woods.

Belichick er 68 ára gamall og var að klára sitt 46. tímabil í NFL-deildinni. Hann hefur undanfarið 21 ár þjálfað lið New England Patriots sem hefur unnið sex meistaratitla undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×