Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf þann 30. desember formleg rannsókn á samkvæmi sem lögregla stöðvaði í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Meðal þess sem rannsakað var voru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem mættu á staðinn með tilliti til brota á sóttvörnum.
Lögreglan gaf þær upplýsingar í dag að rannsókninni ljúki væntanlega á föstudaginn og í framhaldinu verði hún send á ákærusvið sem tekur ákvörðun um framhaldið.
Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp en lögregla greindi frá því á aðfangadag að „hæstvirtur ráðherra“ hefði verið viðstaddur viðburð í miðborginni kvöldið áður, sem leystur hefði verið upp af lögreglu á ellefta tímanum. Greint var frá því að tugir hefðu verið samankomnir á staðnum og nálægðarmörk og grímuskylda ekki virt.
Síðar kom í ljós að umræddur ráðherra var Bjarni Benediktsson og að viðburðurinn var „sölusýning“ á listaverkum í Ásmundarsal. Bjarni hefur sagst aðeins hafa verið inni í salnum í fimmtán mínútur, auk þess sem hann segist ekki hafa brotið sóttvarnalög með veru sinni þar.
Eigendur Ásmundarsalar, hjónin Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, sögðu í yfirlýsingu vegna málsins að reglur um fjöldatakmarkanir og opnunartíma hefðu ekki verið brotnar á Þorláksmessukvöld.