Mikið hefur verið ritað og rætt um sameiningu sveitarfélaga en í dag eru 69 sveitarfélög í landinu. Nú er rætt um að sveitarfélögum með færri en þúsund íbúa verði skylt að sameinast frá árinu 2026 samkvæmt framvarpi á Alþingi. Ása Valdís Árnadóttir, oddviti Grímsnes og Grafningshrepps á meðal annars sæti í starfshópi minni sveitarfélaga.
„Við höfum verið að hittast og fara yfir og leggja fram tillögur til Umhverfis og samgöngunefndar Alþingis um breytingu á frumvarpinu, sem er verið að leggja fram þar sem við leggjum til að ekki verði gerðar neinar lögþvinganir á sameiningum,“ segir Ása Valdís.
En af hverju vilja sveitarfélögin ekki lögþvinganir?
„Við viljum bara ekki að við séum þvinguð til þess, þetta á að vera á forsvari íbúanna sjálfra, við erum ekki á móti sameiningum, heldur til þess að við séum lögþvinguð til að sameinast.“
Ása Valdís segir að Samband íslenskra sveitarfélaga sé mjög meðvitað um afstöðu minni sveitarfélaga til lögþvingaðrar sameiningar og sömu sögu sé að segja með ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurð Inga Jóhannsson.
Heldur þú að þetta náist í gegn, ykkar krafan um að það verði ekki lögþvingun?
„Það er erfitt að segja en manni heyrist svona frekar fleiri vera á móti því heldur en með,“ segir Ása Valdís.
