Dómur í málinu féll í gær en var birtur á vef dómstólanna nú síðdegis. Fréttablaðið greindi frá því í sumar að Arnar Þór Vatnsdal, blóðsonur Tryggva Rúnars, hefði krafist bóta á grundvelli laga um heimild forsætisráðherra til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Arnar Þór er fæddur árið 1973 og var á áttunda aldursári þegar faðir hans, sem hlaut 13 ára fangelsisdóm, var látinn laus árið 1981. Arnar Þór var svo ættleiddur árið 1985, þá tólf ára. Tryggvi Rúnar lést árið 2009 en eftirlifandi eiginkona hans og dóttir, sem hann ættleiddi, fengu samtals 171 milljón króna í bætur vegna málsins.
Arnar Þór byggði kröfu sína gegn ríkinu á því að óumdeilt væri að hann sé sonur Tryggva Rúnars, auk þess sem konurnar tvær hefðu fengið bætur.
Lögin nái ekki til ættleiddra barna
Ríkið kvað skorta lagaheimild til greiðslu bótanna. Þá taldi ríkið að lögin, sem kveða á um heimild til bótagreiðslu vegna málsins, nái ekki til ættleiddra barna. Arnar Þór hefði ekki talist barn Tryggva Rúnars eftir ættleiðinguna.
Ef vilji hefði staðið til að ættleiddum börnum yrðu greiddar bætur hefði það jafnframt verið tekið skýrt fram í lögunum - en svo er ekki. Forsætisráðherra væri þannig óheimilt að greiða Arnari Þór bætur.
Héraðsdómur féllst á þessi rök ríkisins; hann taldi skýrt í lögunum að ekki ætti að greiða öðrum bætur en eftirlifandi maka og börnum. Ef svo væri hefði það verið tekið fram í lögunum. Ríkið var þannig sýknað af öllum kröfum Arnars Þórs og honum gert að greiða 500 þúsund krónur í málskostnað.