Á leikskólanum Fífuborg í Grafarvogi héldu allir ró sinni í morgun enda stórir sem smáir með hárrétt viðbrögð við jarðskjálftum á hreinu. Efnt hafði verið til árlegrar jarðskjálftaæfingingar í morgun.
„Það voru kannski liðnar einhverjar tíu mínútur frá æfingunni þegar jarðskjálftinn reið yfir. Þannig börnin voru alveg klár og vissu alveg hvað þau áttu að gera,“ segir Helga Sigurðardóttir, leikskólastjóri.
Börnin staðfesta þetta. „Við fórum undir borð, krupum og héldum fyrir höfuðið,“ segir leikskólaneminn Anna Rut. Líkt og má sjá í myndskeiðinu gátu börnin sýnt fram á þetta með góðri sýnikennslu.

Þau segjast ekki hafa verið hrædd. „Það var bara allt í góðu með þetta og við vorum allt í lagi. Það kom engin risastór gufa,“ segir Róbert Guðlaugur nokkuð undrandi.
Helga segir börnin hafa verið róleg og telur kennsluna hafa hjálpað.
„Við urðum ekki vör við að þau urðu neitt skelfd eða neitt slíkt, allavega ekki á elstu deildinni. Börnin á yngstu deildinni voru komin út í fataklefann og voru á leiðinni út og urðu ekki vör við jarðskjálftann.“