Fótbolti

Víkingur á­fram í 8-liða úr­slit, Leiknir vann Þrótt í marka­súpu og Fram gerði jafn­tefli við Kór­drengi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Víkingar unnu stórsigur á Þór Akureyri í kvöld og unnu þar með riðil sinn í Lengjubikarnum.
Víkingar unnu stórsigur á Þór Akureyri í kvöld og unnu þar með riðil sinn í Lengjubikarnum. Vísir/Vilhelm

Þrír leikir fóru fram í Lengjubikar karla í knattspyrnu í kvöld. Víkingur tryggði sér toppsætið í sínum riðli með 5-0 sigri á Þór Akureyri. Leiknir Reykjavík vann 5-2 sigur á Þrótt Reykjavík, þá gerðu Fram og Kórdrengir 1-1 jafntefli.

Víkingur tryggði sér sigur í riðli 2 í A-deild með þægilegum sigri á Þór Akureyri á útivelli. Lokatölur 5-0 en markaskorarar hafa ekki enn skilað sér inn á vef KSÍ. Á Twitter segir þó að Einar Guðnason – aðstoðarþjálfari Víkings – hafi skorað fimmta og síðasta mark leiksins. Virkilega áhugavert ef satt reynist.

Víkingur endar því á toppi riðils 2 með 13 stig en KR var í öðru sæti með 11 stig. Bæði lið fara áfram í 8-liða úrslit. Þór Akureyri endaði á botni riðilsins án stiga.

Í fyrri leik kvöldsins í sama riðli gerðu Fram og Kórdrengir 1-1 jafntefli. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Albert Brynjar Ingason gestunum yfir en Aron Snær Ingason jafnaði metin fyrir Fram undir lok leiks.

Í riðli 4 í A-deild vann Leiknir R. sigur á Þrótti R. í leik sem bauð upp á mikla skemmtun. Sævar Atli Magnússon kom heimamönnum í Leikni yfir snemma leiks og Ágúst Leó Björnsson – fyrrum leikmaður Þróttar – tvöfaldaði forystuna skömmu síðar.

Þróttur minnkaði muninn áður en Emil Berger kom heimamönnum í 3-1 á 40. mínútu. Þróttur minnkaði muninn í 3-2 með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks. Nær komust þeir þó ekki en Leiknir skoraði tvö mörk í síðari hálfleik.

Sævar Atli bætti við öðru marki sínu og Daníel Finns Matthíasson tryggði 5-2 sigur Leiknismanna í kvöld. Sigurinn þýðir að Leiknir R. endar með níu stig og gæti það dugað Leikni inn í 8-liða úrslitin.

Eins og staðan er núna er Fylkir í 2. sæti með níu stig – líkt og Leiknir – en Árbæingar eru með betri markatölu. Þeir eiga hins vegar Breiðablik á morgun og tapist sá leikur þá fara Leiknismenn áfram þar sem þeir væru með betri markatölu sem og innbyrðisviðureign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×