Krafturinn í eldgosinu í Geldingadal jókst þegar leið á kvöldið í gær. Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ný sprunga hafi ekki opnast á svæðinu né nýr gígur. Svo virðist sem hraunrennslið í minni gíg hafi orðið kröftugra og spurning hvort það hafi sameinast við stóra gíginn.
Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir veðrið á svæðinu í gott og að svæðið verði opið almenningi i dag.
„Það er suðvestanátt. Þá stendur vindurinn undan gönguleiðinni. Þannig að það lítur bara ágætlega út,“ segir Hjálmar.

Mikill áhugi er fyrir eldgosinu og líklegt að hundruð ef ekki þúsundir hafi heimsótt Geldingadal í gær og búist er við ásóknin verði svipuð áfram. Ekki er búið að skipuleggja umferð ökutækja á svæðinu umfram það sem var í gær.
„Við erum með það í vinnslu. Við erum með ákveðnar tillögur hérna sem síðan þarf að taka ákvörðun um. Það er ekki einfalt að gera þetta vegna þess að við erum að hugsa um hópferðabifreiðar til þess að fara að þannig að allir hafi sem stystu gönguleið að gosstöðvunum. Í ofan á lag að þá er COVID og þetta er flókin samsetning að raða þessu öllu saman þannig að allt sé í lagi,“ segir Hjálmar.

Hjálmar segir að unnið er að framtíðar skipulagi og horft sé orðið á gosið sem langtímaverkefni.
„Við erum svona fyrst og fremst að reyna að ná utan um verkefnið en við þurfum að horfa til framtíðar. Það sem við erum að reyna að tryggja er að allir þessi sem vilja sjá og vilja koma fari öruggustu leiðina. Ekki hér og þar og við erum að ná utan um þetta. Við erum farin að hugsa þetta miklu lengra. Það þarf að gera ráð fyrir allskonar hlutum þegar svona margir vilja koma. Helgin er fram undan og svo eru páskarnir líka þannig að við erum á fullu við undirbúning,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum.