Handbolti

Kom ekki heim til sín í mánuð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rut Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Rut Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Bára

Rut Jónsdóttir, leikmaður KA/Þór í Olís-deild kvenna og íslenska landsliðsins, hefur ekki komið heim til sín síðan í byrjun mars vegna anna með landsliðinu, æfingabanns hér á landi og fleira.

Rut var í viðtali við RÚV fyrir landsleiki Íslands og Slóveníu í umspili um sæti á HM í handbolta. Fyrri leikurinn fer fram á laugardaginn kemur klukkan 15.30 og sá síðari á miðvikudaginn eftir viku klukkan 19.45.

„Erum ekki margar í hópnum sem fengum að upplifa HM fyrir tíu árum. Það var rosalega skemmtilegt og við eigum góðar minningar þaðan. Ég vona að hinar stelpurnar í hópnum fái þá reynslu,“ sagði hin þrítuga Rut í viðtali sínu við RÚV.

„Líkurnar eru kannski ekki með okkur í liði en það er allt hægt. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu verkefni og hef trú á hópnum,“ bætti hún við.

Rut gekk til liðs við KA/Þór fyrir yfirstandandi tímabil en hún hafði leikið í Danmörku frá árinu 2008. Verkefni með landsliðinu í Norður-Makedóníu, æfingabann hér á landi og almennt bras í kringum kórónufaraldurinn hefur gert það að verkum að Rut hefur eytt litlum tíma á Akureyri að undanförnu.

„Ég rétt skrapp heim í einn og hálfan dag um helgina en fyrir það var mánuður síðan ég kom heim til mín. Er svo heppin að hafa dásamlegt fólk í kringum mig, kærasta og fjölskyldu, sem sýna skilning og það skiptir miklu máli. Vonandi verð ég svo komin heim 24. apríl,“ sagði Rut að endingu.

Rut og stöllur hennar í KA/Þór hafa heldur betur staðið fyrir sínu á tímabilinu en liðið er sem stendur efst í Olís-deild kvenna með 19 stig eftir 12 leiki, stigi meira en Fram sem er í 2. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×