Innlent

Tugir í sóttkví í Skagafirði eftir að fjórir greindust smitaðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Sauðárkróki
Frá Sauðárkróki Wikipedia/Steinib68

Sýnatökur og smitrakning eru nú í fullum gangi og tugir manna eru farnir í sóttkví eftir að staðfest var að fjórir væru smitaðir af kórónuveirunni á Sauðárkróki og Skagafirði í gær. Sveitarstjóri Skagafjarðar segir of snemmt að tala um hópsmit en að líkur sé á að sýkingin nú sé meiri að umfangi en sveitarfélagið hafi lent í til þessa í faraldrinum.

„Þetta tengist vinnustað í bænum. Hún er þess eðlis þessi starfsemi að þetta getur teygt sig í ýmsar átti þannig að menn eru bara að reyna að gæta varúðar,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, við Vísi.

Hann segist ekki geta greint frá því á hvaða vinnustað smitin komu upp en segir þau þó ekki tengjast skólastarfsemi. Samkvæmt síðustu staðfestu tölum séu fjórir smitaðir og fjöldi þeirra sem séu komnir í sóttkví hlaupi á tugum.

„Það eru alveg líkur á því að þetta sé stærra umfang en við höfum lent í áður. Við höfum nú sloppið mjög vel hingað til,“ segir sveitarstjórinn.

Þrír af þeim fjórum sem hafa greinst með kórónuveirusmit voru í sóttkví, að því er kemur fram í færslu lögeglunnar á Norðurlandi vestra á Facebook í dag. Alls séu 72 í sóttkví á Sauðárkróki, Varmahlíð og Hofsósi. Af þeim eru 58 á Sauðárkróki.

Sigfús Ingi segir að sá fjöldi sem sé í sóttkví eða smitaður af veirunni geti haft áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu í komandi viku en óljóst er á þessari stundu hversu mikil.

„Það eru miklar sýnatökur núna yfir helgina og rakningarteymið er að störfum þannig að við erum bara aðeins að reyna að ná utan um þetta,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×