Fótbolti

Sakar forseta FIFA um að vera hugmyndasmiðinn að Ofurdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino er æðsti maður fótboltaheimsins sem forseti FIFA.
Gianni Infantino er æðsti maður fótboltaheimsins sem forseti FIFA. EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA

Yfirmaður La Liga á Spáni segir að Gianni Infantino, forseti FIFA, hafi ekki aðeins stutt Ofurdeildarhugmyndina heldur verið maðurinn á bak við tjöldin.

Javier Tebas, hæstráðandi hjá spænsku deildinni, kom með mjög athyglisverða kenningu í nýju viðtali. Hann telur sig vita hver „W01“ er í gögnunum um Ofurdeildina sem láku út. „W01“ er að hans mati enginn annar en sjálfur Gianni Infantino, æðsti yfirmaður knattspyrnuheimsins.

„Það er hann sem er maðurinn á bak við Ofurdeildina og ég hef sagt það við hann í eigin persónu,“ sagði Javier Tebas og hann endurtók sig til að það færi ekkert á milli mála um hvern hann væri að tala.

„Ég hef sagt það áður og mun segja það aftur. Maðurinn sem er að baki þessu öllu saman er Gianni Infantino, forseti FIFA. Það er hann sem er að segja hluti og pressa á þetta,“ sagði Tebas.

Gianni Infantino var forseti UEFA á árunum 2009 til 2016 eða þar til að hann settist í forsetastólinn hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu.

Infantino gaf frá sér yfirlýsingu fyrir sig og FIFA 18. apríl síðastliðinn þar sem kom fram að FIFA væri á móti Ofurdeildinni og hótaði því að leikmenn úr þeirri deild fengju ekki að spila á HM.

Alls voru tólf félög sem stofnuðu Ofurdeildina þar af sex ensku félögin. Öll ensku félögin hættu við þátttöku eftir hörð mótmæli stuðningsmanna sinna og Inter Milan, Atletico Madrid og AC Milan fylgdu síðan í fótspor þeirra.

Real Madrid, Barcelona og Juventus hafa hins vegar enn ekki tilkynnt það að þau séu hætt við. Þau kvörtuðu meðal annars undan óþolandi pressu frá UEFA um að hætta við verkefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×