Handbolti

Seinni bylgjan: Var ÍBV sátt með tap í Krikanum?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
ÍBV tapaði með tveggja marka mun gegn FH í lokaumferð Olís-deildar karla í handbolta.
ÍBV tapaði með tveggja marka mun gegn FH í lokaumferð Olís-deildar karla í handbolta. Vísir/Vilhelm

ÍBV tapaði með tveggja marka mun gegn FH í lokaumferð Olís-deildar karla. Það þýðir að liðin mætast á nýjan leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

„Ég veit ekki hvað, þeir tóku 70 sekúndur í þessa sókn. Voru ótrúlegar slakir einhvern veginn,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, þáttastjórnandi Seinni bylgjunnar um eina af lokasóknum leiksins þegar ÍBV var tveimur mörkum undir.

„Sóknarleikurinn þeirra gengur ekki smurt yfir höfuð. Maður hefur það á tilfinningunni að hver og einn þurfi að dripla boltanum allavega einu sinni,“ bætti Rúnar Sigtryggsson við.

„Hákon Daði [Styrmisson] svo langt framhjá. Sem er frekar ólíkt honum. Umræðan, eftir þennan leik, er að ÍBV hafi ekkert endilega viljað vinna,“ sagði Henry Birgir og beindi þeirri pælingu til Rúnars.

„Þeim hefur örugglega litist best á FH [af liðunum í 8-liða úrslitum]. Því þeim hefur gengið vel síðustu ár gegn FH. Á móti kemur að leiðin þar á eftir er annað hvort Valur eða KA,“ sagði Rúnar áður en Henry bætti við „það væru ekki Haukar næst, það er liðið sem menn eru að reyna að forðast og 7. sæti gerir það að verkum að þeir fari ekki í Haukana næst.“

Umræðu Seinni bylgjunnar um tap ÍBV í Kaplakrika og rimmu liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla má sjá hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Tapaði ÍBV viljandi?

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×