Svo virðist sem til ágreinings hafi komið meðal einstaklinganna í flugi Icelandair og þeir viljað fá gögn Icelandair um atvikið. Þar á meðal vildu þeir fá afrit af upptökum sem kynnu að hafa verið gerðar um borð í flugvélum fyrirtækisins og skýrslur áhafna í tengslum við ágreining í tilteknu flugi.
Í kvörtun þeirra til Persónuverndar í fyrra segjast þeir hafa farið þess á leit við Icelandair árið 2019 að þeim yrðu afhentar allar þær persónuupplýsingar þeirra sem fyrirtækið hefði í bókum sínum og upplýsingakerfum.
Sluppu við sektir
Icelandair svaraði ekki beiðninni í fyrstu. Fyrirtækið segir við Persónuvernd að það hafi meðal annars verið vegna þess að aðgangsbeiðnin hafi verið mislögð og þar með ekki verið beint til rétt starfsmanns.
Icelandair sagði þá við Persónuvernd að flugfélagið myndi verða við beiðni einstaklinganna og afhenda gögnin en benti þó á að fyrirtækið ynni ekki með persónugreinanlegar skýrslur eða upptökur sem sneru að ágreiningi kvartenda vegna flugsins sem þeir voru í.
Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að Icelandair hafi á endanum orðið við beiðninni og látið einstaklingana hafa allar persónuupplýsingar sem þeir áttu rétt á. Stofnunin áminnir hins vega flugfélagið fyrir hve langan tíma það tók fyrirtækið að afgreiða beiðnina og afhenda gögnin.
Icelandair var ekki sektað fyrir þetta atriði.