Handbolti

Aron mættur með Bar­ein til Tókýó

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron á hliðarlínunni.
Aron á hliðarlínunni. TF-Images/Getty Images

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í handknattleikslandsliði Barein eru komnir til Tókýó í Japan þar sem liðið mun taka þátt á Ólympíuleikum í fyrsta sinn.

Barein vann Argentínu í síðasta vináttulandsleik þjóðanna fyrir leikana í Tókýó á mánudag, lokatölur 32-27. Handknattleikskeppni Ólympíuleikanna fer svo af stað á laugardaginn kemur, 24. júlí, þar sem Barein mætir Svíþjóð í fyrsta leik. Svíar enduðu í öðru sæti á HM fyrr á þessu ári.

Barein mætir Portúgal, Japan, Danmörku og Egyptaland sömuleiðis í riðlakeppni leikanna. Leikið er annan hvern dag frá því keppni fer af stað 24. júlí.

Í viðtali við handbolti.is segir Aron að liðið hafi komið til Tókýó á laugardag og farið beint inn í Ólympíuþorpið. Þar gilda strangar reglur vegna kórónuveirunnar. Fékk liðið ekki heimild til þess að fara út fyrir þorpið og æfa en leikurinn gegn Argentínu hafi þó mátt fara fram.

„Það vantar einn línumann í liðið sem er meiddur á öxl. Hann náði ekki að verða klár áður en við fórum af stað. Einnig vantar ungan markvörð,“ sagði Aron um ástandið á leikmannahópi sínum fyrir leikana í viðtalinu við handbolti.is.

Aron er einn fjögurra íslenskra handknattleiksþjálfara á Ólympíuleikunum. Dagur Sigurðsson stýrir Japan, Alfreð Gíslason stýrir Þýskalandi og Þórir Hergeirsson stýrir Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×