Handbolti

Aron Kristjáns vann Dag á Ólympíu­leikunum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson fagnar sigri með leikmönnum sínum í Barein í leikslok.
Aron Kristjánsson fagnar sigri með leikmönnum sínum í Barein í leikslok. AP/Pavel Golovkin

Barein vann tveggja marka sigur á Japan, 32-30, í handboltakeppni Ólympíuleikanna í nótt og fagnaði þar sem fyrsta sigri sínum á leikunum en bæði lið voru búin að tapa þremur fyrstu leikjum sínum.

Aron Kristjánsson, þjálfari Barein, stýrði sínum mönnum þar með til sögulegs sigurs en þetta var fyrsti sigur liðsins á Ólympíuleikum. Mohamed Ahmed og Husain Alsayyad skoruðu báðir sjö mörk í leiknum.

Lið Barein hafði tapað tveimur leikjum á mótinu með einu marki en núna höfðu strákarnir hans Arons taugarnar til að klára leikinn.

Lærisveinar Dags í japanska liðinu töpuðu hins vegar fjórða leiknum í röð og eiga litla sem enga möguleika á því að komast áfram á leikunum sem eru vonbrigði fyrir heimamenn.

Barein á aftur á móti enn möguleika á sæti í átta liða úrslitum en þá þurfa strákarnir hans Arons að vinna Egypta í lokaleiknum og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Japanar voru betri í fyrri hálfleik, náðu meðal annars 4-0 spretti, voru 9-7 yfir þegar hálfleikurinn var hálfnaður og leiddu að lokum með einu marki í hálfleik, 17-16. Tatsuki Yoshino fór á kostum í liði Japan í fyrri hálfleik og skoraði þá sex mörk.

Barein tók frumkvæðið í byrjun seinni hálfleiks og var komið 23-21 yfir eftir níu mínútna leik. Japanir gáfu ekkert aftir og tókst að komast aftur yfir í 26-25 þegar tólf mínútur voru eftir.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en Mohamed Ali, markvörður Barein, sem hafði lítið sem ekkert getað allan leikinn varði þrisvar sinnum á síðustu fimm mínútum sem skipti sköpum. Barein svaraði með þremur mörkum í röð, sigldi aftur fram úr og vann tveggja marka sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×