Tveir nokkuð stórir skjálftar hafa fylgt þeim stærsta, af stærðinni 2,7 og 2 á svipuðu svæði og sá stóri. Töluverð skjálftavirkni hefur verið á svæðinu við Vatnafjöll frá því í hádeginu.
Fréttastofu hafa borist ábendingar frá fólki víða á Suðvesturhorninu, allt frá Vestmannaeyjum og yfir í Hafnarfjörð. Þá fundu veðurfræðingar Veðurstofunnar vel fyrir honum í Öskjuhlíðinni.
Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við fréttastofu að í gögnunum sem Veðurstofan er nú að rýna í, sem ná 30 ár aftur í tímann, sjáist ekki svona stór skjálfti í fljótu bragði. Vitað er um alla vega einn skjálfta frá 1987 sem var 5,8 að stærð á svæðinu.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands telur að skjálftinn undir Vatnafjöllum á öðrum tímanum sé týpískur Suðurlandsskjálfti. Hann telur hann ekki tengjast Heklu
Jóna Sigþórsdóttir starfsmaður í Vínbúðinni á Hvolsvelli segir að allt hafi hrist og skolfið. Ekkert hafi þó farið í gólfið.
„Þetta var mjög mikið, óvenjumikið,“ segir Jóna og lýsir skjálftanum sem löngum.
„Þetta var svolítið lengi að gerast og svo eitt gott högg.“
Áfram er fylgst með gangi mála í vaktinni hér að neðan.