Handbolti

Jón Gunnlaugur: Liðið þarf að fara í naflaskoðun

Andri Már Eggertsson skrifar
Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, var svekktur með leik kvöldsins
Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, var svekktur með leik kvöldsins Víkingur

Víkingur tapaði sínum áttunda leik í röð er þeir mættu Selfossi í kvöld. Selfoss vann leikinn 32-18 og var Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, afar súr eftir leik. 

„Við fengum á okkur tólf mörk í fyrri hálfleik og tuttugu í seinni hálfleik. Selfoss endaði leikinn á 17-7 kafla. Við spiluðum ágætlega í fyrri hálfleik en þetta var síðan mjög lélegt,“ sagði Jón Gunnlaugur eftir leik.

Víkingur skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Jón Gunnlaugur hafði þó litlar áhyggjur á þeim tímapunkti þar sem Selfoss skoraði aðeins fimm mörk.

„Á þessum tímapunkti voru bæði lið í vandræðum með að skora. Þetta var leikur svo ég var ekki neikvæður á því augnabliki.“

„Staðreyndin er sú að við erum ekki nægilega góðir að skjóta á markið. Við skorum 18 mörk og og þau koma frá 11 mismunandi leikmönnum. Maður hræðist þetta komandi upp sem nýliði. Nú er rjóminn farinn af byrjuninni og nú þurfum við sem lið að fara í naflaskoðun. “

Víkingur spilaði ágætlega undir lok fyrri hálfleiks en Jón Gunnlaugur var afar svekktur með hvernig liðið útfærði seinni hálfleikinn.

„Við grófum okkur ofan í holu strax í seinni hálfleik. Selfoss náði að skora fimm mörk í röð á fimm mínútum og þá hættum við. Ég fór síðan að gefa öllum leikmönnum mínútur og notaði ekki einu sinni síðasta leikhléið mitt.“

Þrátt fyrir að hafa tapað öllum leikjunum á tímabilinu hefur Víkingur verið að spila ágætlega og vonar Jón Gunnlaugur að hans lið muni ekki eiga aðra svona frammistöðu.

„Við höfum sýnt hvað við getum í mörgum leikjum. Í kvöld vorum við með yfir tíu tæknifeila í seinni hálfleik vegna þess menn fóru að leyfa sér hluti sem voru ekki í lagi.“

„Það sem við þurfum að gera er að spila meira á okkar eigin verðleikum. Leiðtogar í liðinu þurfa að stiga upp,“ sagði Jón Gunnlaugur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×