Það búa á bilinu hundrað og fimmtíu til tvöhundruð manns frá Eþíópíu á Íslandi. Þau hvöttu íslensk stjórnvöld til að standa að baki lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í heimalandinu með mótmælastöðu á Austurvelli í dag. Síðar hélt hópurinn svo að sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík til að mótmæla afskiptum Bandaríkjastjórnar að málefnum landsins..
Abiy Ahmed forsætisráðherra Eþíópíu frestaði þingkosningum í landinu í fyrra vegna kórónuveirufaraldurins. Ríkjandi flokkur í Tigray héraði í norðri, eða Frelsishreyfing Tigray, boðaði engu að síður til kosninga og eftir það hafa geysað bardagar á milli stjórnarhersins og bardagasveita Tigray héraðs.
Á mótmælafundinum í dag voru Bandaríkin og önnur vestræn ríki sökuð um að styðja „hryðjuverkasamtök Tigray“ gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Hópurinn afhenti afhenti þingvörðum síðan áskorun til Alþingis um stuðning við lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Eþíópíu.
Kassahun Alemayehu sem býr á Íslandi hafði orð fyrir hópnum sem hélt á mótmælaspjöldum og fánum Íslands og Eþíópíu á Austurvelli í dag.
„Við erum öll friðelskandi Eþíópar og andstæðingar stríðsátaka. Við erum að mótmæla utanríkisstefnu Bandaríkjanna og refsiaðgerðum þeirra gegn Eþíópíu,“ sagði Alemayehu.
„Á Íslandi eru góð stjórnvöld. Lýðræðislega kjörin og styðja alla tíð mennsku og mannleg gildi. Þannig að við hvetjum ríkisstjórn Íslands til að styðja lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Eþíópíu,“ sagði Kassahun Alemayehu.