Sport

Ekki fleiri nefndir um þjóðarleikvanga: „Sannfærður um að við löndum þessu“

Sindri Sverrisson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hlýða á Ásmund Einar Daðason í Pallborðinu í gær.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hlýða á Ásmund Einar Daðason í Pallborðinu í gær. Vísir/Vilhelm

„Við þurfum bara að ýta á Enter,“ segir Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, um nýja þjóðarleikvanga fyrir boltaíþróttir og frjálsíþróttir sem lengi hefur verið beðið eftir.

Ásmundur mætti í Pallborðið í gær og tók undir að nú væru allar forsendur fyrir hendi til að farið verði í byggingu nýrra leikvanga. Nóg hafi verið unnið með málum í nefndum á síðustu árum.

„Ég get lofað því að það verði ekki fleiri nefndir sem að velta þessu upp. En það þarf auðvitað einhver að fara í samtal um þessi mál,“ sagði Ásmundur.

Klippa: Pallborðið - Ásmundur sannfærður um að leikvangar rísi á næstu árum

„Við ætlum ekki að horfa upp á það að landsliðin okkar séu að fara að spila alla heimaleiki erlendis á næstu árum,“ sagði Ásmundur en sú er þó orðin raunin í tilfelli karlalandsliðsins í körfubolta sem væntanlega þarf að spila heimaleik á Ítalíu í febrúar.

„Þú ert að fara að horfa upp á það,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson sem stýrði umræðunum.

Þó að við millifærðum 21 milljarð núna yrði þjóðarhöll ekki klár á næsta ári

„Ég hef nú fulla trú á því að ef að málin komast á hreyfingu þá komi jákvæðara hljóð þaðan. Það gefur augaleið að jafnvel þó að við myndum setja í þetta núna 21 milljarð, eins og skýrslurnar gera ráð fyrir, og værum tilbúin að millifæra þá upphæð á morgun, þá erum við ekki að fara að vera klár með þjóðarhöll hérna um mitt næsta ár,“ sagði Ásmundur enda öllum ljóst að uppbygging leikvangana gæti tekið drjúgan tíma:

„Það á eftir að hanna, fara í deiliskipulag og útboð. Allt þetta tekur tíma en við þurfum að komast á þann stað að þetta fari af stað, því það tekur alltaf einhvern X tíma. Við eigum smá eftir í þessu hlaupi og við ætlum að klára það, og við gerum það saman. Ég er sannfærður um að þjóðin, hvort sem er ríki, borg eða íþróttahreyfingin, að við löndum þessu saman,“ sagði Ásmundur.


Tengdar fréttir

Bauð ríkisstjórnina velkomna á heimaleik Íslands á Ítalíu

Íþróttahreyfingin hefur lengi kallað eftir nýjum þjóðarleikvöngum og í vetur er svo komið að íslenska karlalandsliðið í körfubolta neyðist til að spila leiki á útivelli sem fara áttu fram á Íslandi. Formaður KKÍ bauð ríkisstjórninni á „heimaleik“ á Ítalíu í febrúar, í Pallborðinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×