Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að landamærahópur forsætisráðherra hafi að ósk sóttvarnalæknis skoðað forsendur fyrir því að krefja farþega um neikvætt PCR-próf fyrir byrðingu og það að biðja alla farþega sem kæmu til landsins um að fara í próf á landamærunum.
„Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni eru tekin PCR sýni á Keflavíkurflugvelli úr yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem hafa tengsl við Ísland eða um 90 prósent þeirra. Þá er því fylgt eftir af sóttvarnayfirvöldum að Íslendingar og þau sem hafa tengsl við Ísland og taka ekki PCR-próf á flugvellinum mæti í próf innan 48 klukkustunda frá komu,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir að ekki sé talið rétt að breyta fyrirkomulaginu á landamærunum nema mjög sterk rök hnígi til þess. Er það vegna þeirrar óvissu sem breytingar kunni að valda.
Þó verður gerð sú breyting að bólusetningarvottorð gilda í níu mánuði í stað tólf og er það í samræmi við nýjar reglur Evrópusambandsins.
Aðgerðirnar á landamærunum voru hertar í lok nóvember, vegna ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar.
Aðgerðirnar sem eru í gildi á landamærunum má finna hér á vef Ríkislögreglustjóra.