Innlent

Í starfslýsingu forseta að halda stillingu yfir ósigrinum

Snorri Másson skrifar
„Ég vona nú að við förum ekki að klifra upp á þak þinghússins á svipstundu með hamar og meitil. Við eigum ekki heldur að leggja niður dönskukennslu og við eigum ekki á svipstundu að heimta handritin öll heim,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
„Ég vona nú að við förum ekki að klifra upp á þak þinghússins á svipstundu með hamar og meitil. Við eigum ekki heldur að leggja niður dönskukennslu og við eigum ekki á svipstundu að heimta handritin öll heim,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Vísir/Egill

Forseti Íslands hvetur landsmenn til stillingar í úlfúð þeirri sem ýfst hefur upp í garð Dana eftir að ósigur þeirra útilokaði Íslendinga frá undanúrslitum á EM. Við eigum hvorki að steypa konungsmerkjum af þinghúsum né afnema dönskukennslu að mati Guðna.

Samfélagsmiðlar hafa logað í gær og í dag af svívirðingum í garð Dana eftir að þeir klúðruðu málum gegn Frökkum. Vonbrigðin hafa opnað sár okkar nýlenduþjóðarinnar og ýmislegt verið dregið upp. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata minnti á tillögu sína um að fjarlægja merki Danakonungs af Alþingishúsinu.

„Þrátt fyrir tapið í gær og hvernig þessi blessaði leikur fór eru nú sterk vinabönd milli Íslands og Danmerkur,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Nærðu að stilla þig með öllu? 

„Það er nú nánast bundið í starfslýsinguna.“

„Ég vona nú að við förum ekki að klifra upp á þak þinghússins á svipstundu með hamar og meitil. Við eigum ekki heldur að leggja niður dönskukennslu og við eigum ekki á svipstundu að heimta handritin öll heim,“ segir Guðni.

Dönskukennsla er að sögn Guðna eftir sem áður mikilvæg, jafnvel þótt hún hafi á stundum orðið fólki að tilefni til þess að spyrja á Vísindavefnum hvort hægt sé að deyja úr leiðindum.

„Verum nú bara róleg og sýnum æðruleysi og jafnaðargeð. Hvað segir nú ekki í laginu? Livet er ikke det værste man har og om lidt er kaffen klar,“ segir Guðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×