Óttast er að Rússar muni láta til skarar skríða á næstu dögum en þeir hafa komið upp miklum herafla og aukið viðbúnað sin ná landamærum Úkraínu.
„Staðan er mjög alvarleg og hún er ekki að lagast svona með klukkustundunum sem líða. En við vonumst enn þá eftir friðsamlegri lausn. Við vonum að það sé nægur vilji til þess að leita slíkra lausna þannig að við leyfum okkur að vona það besta en við vissulega búum okkur undir það versta,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og rithöfundur, segir enn fremur að heræfingar Rússa í Hvíta-Rússlandi hafi aukið á áhyggjurnar.
„Þetta verður hættulegur tími næstu vikuna meðan á þessum heræfingum stendur, þá er alltaf möguleiki á því að eitthvað fari úrskeiðis. Að einhverjar sprengjur rati á vitlausa staði og svo fram vegis. En það er ekkert held ég sem bendir sérstaklega til þess að það sé innrás í aðsigi frekar heldur en vanalega eins og svo má segja,“ segir Valur.
Margeir Pétursson, bankamaður og skákmaður, hefur verið með annan fótinn í Lviv í vesturhluta landsins um árabil. Hann segist að vel athuguðu máli ekki ætla að verða við tilmælum íslenskra stjórnvalda um að yfirgefa landið, hann vilji sýna samstöðu með úkraínsku starfsfólki.
Aðrir Íslendingar séu sömuleiðis rólegir og almenningur hafi ekki áhyggjur. Þeir sem hagnist af þessu ástandi séu Rússar og segir Margeir að hið sama gildi og í skákinni; að hótunin sé sterkari en leikurinn.
Valur tekur undir þetta en tekur fram að Úkraínumenn hafi búið sig undir þessa hættu síðustu ár.
„Ég er búinn að tala við fólk í Úkraínu í dag og sumir hafa litlar áhyggjur, aðrir segja látum þá bara koma því Úkraínumenn eru bunir að undirbúa sig undir þetta í átta ár og eru orðnir miklu vígreifari og betur vopnum búnir heldur en þeir voru fyrir átta árum síðan,“ segir Valur.
Utanríkisráðuneytið hefur verið í samskiptum við Íslendinga í landinu.
„Við vitum dæmi þess að einhverjir hafi farið veit ekki hingað en farið úr landinu, við biðlum til fólks að láta vita af sér og hins vegar í raun að beita almennri skynsemi, vera á varðbergi,“ segir Þórdís Kolbrún.