Fótbolti

Félag Guðlaugs Victors slítur samstarfinu við rússneska orkurisann

Sindri Sverrisson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar munu ekki lengur verða tengdir Gazprom en fyrirtækið auglýsti framan á búningum Schalke.
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar munu ekki lengur verða tengdir Gazprom en fyrirtækið auglýsti framan á búningum Schalke. Getty

Þýska knattspyrnufélagið Schalke hefur gengið skrefi lengra en fyrir helgi og rift samningi sínum við orkurisann Gazprom, sem er í eigu rússneska ríkisins, vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Guðlaugur Victor Pálsson og félagar í Schalke báru ekki nafn Gazprom á treyjum sínum um helgina þegar Schalke mætti Karlsruhe í þýsku 2. deildinni. Victor sat reyndar á bekknum í þeim leik, í 1-1 jafntefli.

Eftir að hafa fjarlægt merki Gazprom af liðstreyjunum samþykkti stjórn Schalke svo í dag að rifta alveg samningi sínum við Gazprom.

Um stórt skref er að ræða hjá Schalke því Gazprom, sem er stærsti innflytjandi á gasi til Þýskalands, hefur verið helsti bakhjarl félagsins í 15 ár.

Schalke hefur áður fengið gagnrýni fyrir að halda viðskiptasambandi við Gazprom, til að mynda árið 2014 þegar Rússar hertóku Krímskaga. Nýjasti samningur félagsins við Gazprom var gerður árið 2021 og átti að gilda til ársins 2025.

Í yfirlýsingu Schalke segir að vonir standi til þess að hægt verði að tilkynna um nýjan styrktaraðila fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×