Handbolti

Roland vonast til að geta snúið aftur til Úkraínu en fjölskyldan ekki jafn spennt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mariam og Roland Eradze. Feðginin eiga það sameiginlegt að hafa spilað með Val.
Mariam og Roland Eradze. Feðginin eiga það sameiginlegt að hafa spilað með Val. stöð 2

Roland Valur Eradze vonast til að geta snúið til baka til úkraínsku borgarinnar Zaporizhzhia eftir nokkra mánuði. Hann er aðstoðarþjálfari meistaraliðsins HC Motor þar í borg.

Roland kom til Íslands á föstudaginn eftir langt ferðalag frá Zaporizhzhia. Rússar réðust inn í Úkraínu aðfaranótt fimmtudags, á svipuðum tíma og Motor kom heim frá Póllandi eftir að hafa leikið gegn Kielce í Meistaradeild Evrópu.

„Þetta voru hættulegar aðstæður. Það var búið að loka fyrir flugumferð svo við fórum aftur til Kænugarðs. Það trúði því enginn að Rússar myndu varpa sprengjum á borgina en það gerðist samt,“ sagði Roland um ferðalagið í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Sportpakkanum.

Sem fyrr sagði er Roland aðstoðarþjálfari Motor en aðalþjálfari liðsins er Gintaras Savukynas sem gerði garðinn frægan með Aftureldingu í kringum aldamótin. Roland kann vel við sig hjá Motor og vonast til að geta snúið aftur til Úkraínu.

„Ég vona að allt verði í lagi og eftir sex mánuði getum við kannski haldið áfram, allavega á næsta tímabili,“ sagði Roland.

Klippa: Roland vill snúa aftur til Motor

Fjölskylda Rolands er samt ekki jafn spennt fyrir því að hann snúi aftur til Úkraínu og hann sjálfur.

„Við fjölskyldan viljum það ekkert endilega. Við viljum bara fá hann heim. En svo hugsar maður til hans og hversu ánægður hann var þarna úti með þessu liði. Þetta er akkúrat það sem hann vildi,“ sagði Mariam Eradze, dóttir Rolands.

„Maður vonar, ef hann ákveður að fara aftur út, að allt verði fullkomið. En svo er maður bara: vertu bara heima.“

Motor er langsterkasta lið Úkraínu, hefur unnið meistaratitilinn þar í landi níu ár í röð og er fastagestur í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×