Þetta segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda um hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og en bensínverð ríkur nú upp úr öllu valdi í kjölfar innrásarstríðs Rússa. Í morgun riðu flestar íslenskar bensínstöðvar á vaðið með hækkanir og nokkrar þeirra rufu þrjú hundruð króna múrinn. Allt útlit er fyrir enn meiri hækkanir á næstu dögum.
Runólfur segir að enn ógnvænlegri verðþróun sjáist á dísilolíu.
„Svona verðsveifla hefur ekki sést í Evrópu í manna minnum. Norður-Evrópumarkaðsverð á dísilolíu fór upp um hátt í 100% síðastliðinn sólarhring. Þetta kemur meðal annars til út af því að það er auðvitað aukin eftirspurn eftir dísilolíu út af húsakyndingu nú þegar verið er að skerða gasið frá Rússlandi þannig að þetta hefur allt áhrif.“Hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu hefur ekki aðeins áhrif á bensín.
„Þetta hefur margfeldisáhrif á allt verðlag. Við sáum til dæmis fréttir um það í morgun að vörubílstjórafélagið Þróttur hafi hækkað gjaldskrá vegna hás olíuverðs. Þetta mun hafa áhrif á rekstur heimilanna, rekstur fyrirtækja, hafa áhrif á aðdrætti, flutninga og flug.“

Runólfur kallar eftir því að stjórnvöld dragi tímabundið úr skattheimtu á olíu til að koma í veg fyrir verðbólguskot.
„Um það bil helmingur af hverjum seldum lítra á dælu hér er skattur í ríkissjóð þannig að það er ekkert óeðlilegt að stjórnvöld komi núna að borðinu og lækki allavega tímabundið skatta. Það eru fordæmi fyrir því. Þá yrðu menn að reyna að hafa áhrif á verðlagningu á vörunni til þess að fyrirbyggja verðbólguskot. En það sem hjálpar heldur ekki er að íslenska krónan hefur verið að veikjast gagnvart Bandaríkjadal og öðrum gjaldmiðlum sem eykur enn á vandræðin hér heima.“
Hefur eldsneytisverð á Íslandi einhvern tíman verið svona hátt?
„Nei, ekki í krónum en svona uppreiknað miðað við verðlag höfum við náð svona toppum en það lítur allt út fyrir að við séum að fara fram úr því núna. Allavega miðað við þær spár sem maður les þá eru menn ekki að sjá að þetta sé einhver endastöð í dag. Þróunin muni halda svona áfram, því miður.“