Skoðun

Hversu mörg ár af lífi ein­stak­lings er eðli­legt að sitja undir of­sóknum yfir­valda?

Karl Wernersson skrifar

Ég hef hingað til ákveðið að halda mig til hlés í fjölmiðlum hvað varðar ofsóknir yfirvalda á hendur mér vegna meintra bókhaldsbrota árin fyrir hrun. Mál vegna þessa hafa nú tekið 14 ár á þessu ári með viðeigandi óvissu fyrir alla aðila. Á þeim tíma hafa fallið dómar og áfrýjanir hafa orðið að frekari dómum. Ég hef setið í fangelsi, verið á áfangaheimili og verið í stofufangelsi.

Nú síðast vann ég mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem viðurkennt var brot íslenska ríkisins á mannréttindum mínum í því sakamáli þar sem ég var dæmdur til fangelsisvistar. Eftir þá niðurstöðu staðfesti Endurupptökudómstóll að verulegir gallar hafi verið á meðferð sakamálsins gegn mér, verulegir gallar sem gáfu tilefni til endurupptöku sakamálsins. En eins og segir m.a. í niðurstöðu Endurupptökudómstólsins: “….með vísan til þeirrar meginreglu sakamálaréttarfars að sönnunarbyrði um sekt ákærðu hvíli á ákæruvaldinu og að allan vafa um sök hans beri a meta honum í hag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, þykir rétt með hliðsjón af framangreindu og eins og atvikum máls er háttað, að leggja til grundvallar að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls endurupptökubeiðanda fyrir Hæstarétti í máli nr. 74/2015 sem hafi haft áhrif á niðurstöðu þess. Samkvæmt því verður fallist á beiðni endurupptökubeiðanda….”.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu hjá Mannréttindadómstól Evrópu og Endurupptökudómi og í kjölfar þess að sakamálið er aftur komið til meðferðar hjá Hæstarétti, virðist yfirvöldum þykja viðeigandi að hefja ofsóknirnar upp á nýtt með húsleit á heimili mínu, vinnustað mínum og heimili fjölskyldumeðlima ásamt fleiri aðilum. Virðist tilgangurinn vera sá að aðstoða þrotabú mitt vegna dómsmála sem það er að reka í dómskerfinu. Ekki er talið nóg að þrotabúið reyni að sækja fjármuni heldur ákveður yfirvaldið að rétt sé, þegar von er á dómi á næstu dögum, að hefja sakamálarannsókn.

Ég spyr því. Er þessi tímasetning tilviljun? Er það tilviljun að hafin sé sakamálarannsókn á grundvelli gamallar kæru nokkrum dögum fyrir dómsniðurstöðu í tengdu einkamáli? Er þörf á húsleit vegna viðskipta sem eru 8 ára gömul? Eða er kannski verið að reyna að hafa áhrif á dómara sem eru þessa dagana að kveða upp dóm? Eru mannréttindi bara sumra en ekki annarra? Hvenær sættir yfirvaldið sig við að tilefnið var ekkert og nú sé nóg komið af stöðugum inngripum inn í líf fólks?

Eru 14 ár í ofsóknum ekki nóg?

Virðingarfyllst

Karl Wernersson.




Skoðun

Sjá meira


×