Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í máli þessu en stefnandi, sem er öryrki, taldi að innheimta fyrir leigu á öndunarvélinni og vörum sem henni fylgdu skorti lagastoð. Hann krafðist því greiðslu á þeim 10.560 krónur sem hann hafði greitt fyrir vélina. Markmið laga um heilbrigðisþjónustu væri þar að auki að allir landsmenn ættu kost á þeirri heilbrigðisþjónustu sem kostur væri á hverju sinni.
Stefndu, íslenska ríkið og Landspítalinn, mótmæltu öllum málatilbúnaði stefnanda sem röngum. Hið rétta væri að kostnaðurinn fyrir öndunarvélina væri kostnaðarhlutdeild hans sjálfs, sem ekki fengist greiddur úr sjúkratryggingu. Ekki væri um að ræða gjaldtöku í þeim skilningi heldur greiðsluþátttöku þar sem niðurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands sleppir.
Héraðsdómari taldi ágreiningslaust að öndunarvélin sem stefnandi notaði væri honum nauðsynlegt hjálpartæki. Það væri þó ljóst að í lögum væri ekki gert ráð fyrir því að ríkið bæri allan kostnað við öflun hjálpartækja sem nýtt eru til lengri tíma heldur taki einungis Sjúkratryggingar þátt í kostnaði og það með takmörkunum.
Dómari taldi enn fremur að gjaldtakan hvorki í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar né brot á meðalhófsreglu. Horfa þyrfti til þess að gjaldið sem stefnandi greiddi væri rétt rúmlega 400 krónur á mánuði. Íslenska ríkið og Landspítali voru því sýknuð af kröfum stefnanda en héraðsdómari taldi rétt að málskostnaður í málinu félli niður.