Þetta kemur fram í samtali Magnúsar við Fréttablaðið í morgun. Hann gagnrýnir sömuleiðis harðlega aðkomu stjórnmálamanna að því að greiða bætur til þeirra sem komu fjórmenningunum í fangelsi með röngum sakargiftum. Hann hafi á tilfinningunni að verið sé að greiða bætur fyrir að bera á fjórmenningana rangar sakir.
Í samtali við blaðið segir Magnús að settur ríkissaksóknari hafi ekki rökstutt nægilega niðurstöðuna, sem leiddi svo til sýknudóms Hæstaréttar. Saksóknari hafa einungis gert kröfu um að rétt væri að sýkna þau Sævar Marínó Ciesielski, Kristján Viðar Júlíusson og Guðjón Skarphéðinsson af mannshvörfum. Sakfellingar sem snúi að öðrum afbrotum standi hins vegar eftir óhaggaðar, þar með talið rangar sakargiftir.
Nefnir Magnús að í hæstarétttardómnum frá 1980 viðurkenni fólkið að það hafi verið samantekin ráð sakborninganna að bendla þá Magnús, Einar Bollason, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson – sem oft hafa verið kallaðir Klúbbsmenn í málinu – við málið, torvelda rannsóknina, væntanlega til að dylja eigin glæpi.
Rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafi ekki einungis snúið að mannshvörfum, heldur einnig nauðgun, þjófnað fjársvik, brennu, skjalafals, smygl og sölu á fíkniefnum og svo rangar sakargiftir.