Rússneska orkufyrirtækið Gazprom skrúfaði fyrir gasflutninga til Póllands og Búlgaríu í dag.
Ríkin hafa eins og önnur Evrópuríki ekki orðið við kröfum um að greiða fyrir gasið með rúblum eins og Vladimir Putin Rússlandsforseti hefur krafist til að vinna gegn hruni rúblunnar.
Forsætisráðherra Búlgaríu segir aðgerðir Gazprom skýrt brot á samningum.
Búlgaría muni fá gas annars staðar frá, meðal annars í gegnum nýja gasleiðslu frá Grikklandi sem verði tilbúin í júní.
Pólverjar standa betur að vígi en Búlgaría hvað varðar gasbirgðir og hafa undanfarin ár byggt upp innviði til að fá gas annars staðar frá en Rússlandi.
Mateusz Morawiecki forsætisráðherra landsins segir að með aðgerðum sínum hafi Rússar fært heimsvaldastefnu sína á nýtt stig. Þetta væri bein árás á Pólland.
„Við munum ekki beygja okkur fyrir þessari fjárkúgun. Ég fullvissa einnig landsmenn um að þessi aðgerð Putins og kremlverja mun ekki hafa áhrif á pólsk heimili eða stöðu Póllands," sagði Morawiecki.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir ákvörðun Gazprom enn eina ögrunina frá ráðamönnum í Kreml.
„En það kemur ekki á óvart að Kreml reyni að kúga okkur með jarðefnaeldsneyti. Framkvæmdastjórnin hefur undirbúið sig fyrir þessar aðgerðir í nánu samstarfi og samstöðu aðildarríkjanna og alþjóðlegra samstarfsaðila. Viðbrögð okkar verða skjót, sameinuð og samhæfð,“ sagði von der Leyen í dag.
Þjóðverjar eru allra Evrópuþjóða háðastir jarðgasi frá Rússlandi. Eftir að þeir ákváðu að útvega Úkraínumönnum skriðdreka og loftvarnarbúnað í gær má búast við að skrúfað verði á gasið til þeirra. Christian Sewing bankastjóri Deutsche Bank segir að það gæti þýtt allt að fimm prósenta samdrátt í hagvexti í Þýskalandi.
Von der Leyen segir að strax á þessu ári verði gripið til aðgerða sem dragi stórlega úr þörf á orku frá Rússlandi og fjárfest verði í endurnýjanlegum orkugjöfum.
„Þessi síðasta árásargjarna aðgerð Rússa er sterk áminning um að við þurfum að vinna með áræðanlegum samstarfsaðilum og byggja upp sjálfstæði í orkumálum. Tímabil jarðefnaeldsneytis frá Rússlandi er liðið. Evrópa er í framsókn í orkumálum,“ sagði Ursula von der Leyen.