Skoðun

Burt með rafrettur og munntóbak

Lárus Guðmundsson skrifar

Öllum sem láta sig forvarnir einhverju skipta hlýtur að svíða það andvaraleysi sem ríkir meðal stjórnvalda vegna sívaxandi notkunar á rafrettum (weip) eða munntóbaki meðal íslenskra ungmenna. Líklega væri rétt að tala um þetta sem faraldur og þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu ungmenna í framtíðinni.

Mér eru forvarnarmál sérlega hugleikin eftir áralangt starf innan íþróttahreyfingarinnar og meðal barna og ungmenna í Garðabæ. Sýn mín á lífið sem afi hefur einnig áhrif. Staðreyndin er sú að stöðugt steðja nýjar hættur að ungu fólki, hvort sem það eru fíkniefni, rafrettur (weip) eða munntóbaksnotkun. Fyrir áratug stóð ég að samstarfi við Landlæknisembættið um átakið: „Fyrirmyndir nota ekki munntóbak.“ Þar voru fyrirmyndir þess tíma, í íþróttum og

tónlist, notaðar í auglýsingar og veggspjöld með ungum börnum og minnt á að fyrirmyndir nota ekki munntóbak. Það gera börnin sem fyrir þeim er haft. Afreksfólk í íþróttum verður að gangast við ábyrgð sinni sem mikilvægar fyrirmyndir.

Þetta var mikilvægt átak en nú finnst mér aftur síga á verri hliðina. Við erum stöðugt minnt á það í fréttum að notkun refretta og munntóbaks er að aukast og kallar stundum á sjúkrahúsinnlagnir. Að ekki sé talað um hve hættulegir þessi munntóbakspúðar eru litlum börnum þegar þeir eru skyldir eftir á glámbekk.

Það er mikilvægt að bæjaryfirvöld í Garðabæ látið rafrettur og munntóbaksnotkun ekki líðast á skóla- og íþróttasvæðum bæjarins. Slíkt er óásættanlegt enda veit enginn í dag hver eru langtímaáhrif af slíkri notkun. Rafrettur eru fremur ný vara á markaði og skortir langtímarannsóknir sem varpa ljósi á möguleg áhrif notkunar þeirra. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á að ríki setji sömu reglur um rafrettunotkun og gilda um tóbaksreykingar þar til sýnt hefur verið fram á skaðleysi varanna. Ábyrgt fólk hlýtur því að spyrja um forvarnir. Þetta er ekki holl iðja fyrir æsku landsins og sem fyrr verða fyrirmyndir unga fólksins að ganga fram fyrir skjöldu.

Höfundur er oddviti Miðflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×