Erlent

Langar biðraðir á flugvöllum um alla Evrópu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fólk hefur þurft að bíða í löngum biðröðum á flugvöllum um alla Evrópu.
Fólk hefur þurft að bíða í löngum biðröðum á flugvöllum um alla Evrópu. Getty/Mr Cole

Ferðasumarið er hafið og langar biðraðir hafa myndast á flugvöllum um alla Evrópu. Kerfisbilanir og skortur á starfsfólki spila inn í það, ásamt mikilli aukningu á ferðamönnum eftir tvö sumur í röð með heimsfaraldri.

Flugvellir í Frakklandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi og Bretlandi hafa allir greint frá löngum biðröðum hjá sér seinustu daga.

Í Frakklandi bilaði tölvukerfi á bæði Charles de Gaulle og Orly-flugvöllunum og urðu því miklar tafir á brottförum og komum farþegaflugs. Tölvukerfið sem um ræðir er notað af landamæraeftirlitinu þar í landi og gátu farþegar ekki komist í gegnum eftirlitið.

Í Hamburg í Þýskalandi var öllum flugum seinkað og mátti enginn fara inn á eða út af flugvellinum í smá tíma. Samkvæmt þýska dagblaðinu Bild var flugvellinum lokað vegna lögreglurannsóknar en ekki er vitað hvers vegna það þurfti að loka honum.

Á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam þurftu farþegar að bíða í löngum biðröðum þar sem ekki hafði náðst að ráða nægilega marga starfsmenn til að starfa í öryggisleit flugvallarins. Arlanda-flugvöllurinn í Stokkhólmi glímir við sama vandamál.

Verst er ástandið í Bretlandi þar sem flugfélög hafa þurft að aflýsa fjölda ferða og ríkja miklar deilur meðal ráðamanna og flugvallarstarfsmanna um hver beri ábyrgð á því.

Ráðamenn vilja meina að flugvellirnir hafi ekki ráðið nægilega margt starfsfólk á flugvöllinn og að ferðaskrifstofur hafi selt fleiri flugsæti en eru í boði.

Yfirmenn á flugvöllum segja að tafirnar megi rekja til aukinna réttinda sem starfsmenn þurfa að hafa til að mega starfa við öryggishlið vallanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×