Erlent

Fá grænt ljós á frekari geimskot frá Texas

Samúel Karl Ólason skrifar
Starship-geimfar á skotpalli í Texas.
Starship-geimfar á skotpalli í Texas. AP/SpaceX

Verkfræðingar og vísindamenn SpaceX mega halda áfram tilraunum sínum með geimfarið Starship í Suður-Flórída. Tilraunirnar voru stöðvaðar á meðan umhverfismat fór fram. Framkvæmd matsins dróst verulega á langinn.

Þrátt fyrir að leyfi hafi fengist til að halda tilraunum áfram fylgja leyfinu ýmiss skilyrði. Starfsmenn SpaceX munu þurfa að framfylgja tæplega áttatíu skilyrðum til að draga úr áhrifum þróunarvinnunnar á umhverfið og íbúa í Texas.

Meðal þess sem þarf að gera er að gera sérfræðingum kleift að vakta dýralíf og gróður á svæðinu og láta íbúa vita af öllu sem mun hafa áhrif á þá, eins og háværum tilraunum og tilraunaskotum. Starfsmenn SpaceX munu einnig þurfa að tryggja að allt brak sé hreinsað upp og breyta ljóskösturum á svæðinu þannig að þeir hafi minni áhrif á dýralífið á svæðinu á næturnar.

Næsta skref í þróun geimfarsins er að senda það á braut um jörðu og er vonast til þess að það væri hægt á næstunni. Forsvarsmenn fyrirtækisins vilja einnig fara í mikla uppbyggingu í Texas og gera skotpallinn þar að einum af þeim stærstu í Bandaríkjunum, samkvæmt frétt Ars Technica.

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur gert samning við SpaceX um að lenda geimförum á tunglinu á komandi árum.

Sjá einnig: NASA semur við SpaceX um að lenda geimförum aftur á tunglinu

Ekki er útlit fyrir að SpaceX muni geta skotið Starship á loft frá Flórída, því forsvarsmenn NASA hafa krafið yfirmenn SpaceX um skýringar á því hvernig hægt væri að tryggja aðra skotpalla við Kennedy-geimmiðstöðina í Flórída, sem eru mikilvægir rekstri Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Reuters sagði frá því í gær að það gæti tekið marga mánuði að ganga frá því máli.

Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar.

Elon Musk, eigandi SpaceX hefur áður sagt að Starship eigi í raun að vera eins og flugvélar. Hægt verði að stíga um borð í geimfar hér á Íslandi og lenda svo í Japan skömmu seinna. Þar eigi einungis að þurfa að dæla eldsneyti á geimfarið og fljúga því eitthvað annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×