Innlent

Verka­maðurinn úr­skurðaður í fjögurra vikna langt gæslu­varð­hald

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þessir verkamenn tengjast fréttinni ekki beint. 
Þessir verkamenn tengjast fréttinni ekki beint.  Vísir/Vilhelm

Verkamaður sem réðst á vinnufélaga sinn á sautjánda júní og veittist að honum með haka og klaufhamri hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.

Átökin brutust út að morgni þjóðhátíðardags á framkvæmdasvæði á Seltjarnarnesi og þeim lauk þannig að tveir fóru á sjúkrahús og einn í fangaklefa.

Í bráðabirgðalæknisvottorði kom fram að áverkar hinna slösuðu hafi ekki verið lífshættulegir. Atlagan hafi hins vegar verið sérlega hættuleg og ekki mátti miklu muna að verr hafi farið.

Samkvæmt Einari Guðberg Jónssyni, hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, miðar rannsókn málsins vel 

„Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir. Rannsóknin núna snýr að því hver upptökin voru og hve mörg högg voru veitt.“

Hann segir ekki komin niðurstaða um hvort atlagan verði rannsökuð sem tilraun til manndráps en það verði tekið fyrir með ákærusviði í næstu viku. 

Búið sé að yfirheyra sakborning en rætt verði við vitni í framhaldinu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×