Í fréttum Stöðvar 2 sást rifjað upp að Sigurður Ingi Jóhannsson sem samgönguráðherra var sá síðasti sem greiddi veggjald í Hvalfjarðargöng þegar innheimtu lauk haustið 2018. Núna hefur hann kynnt áform um að stofna opinbert hlutafélag með það helsta hlutverk að innheimta notkunargjöld, bæði af vegum og jarðgöngum, en Sigurður Ingi sagði í síðustu viku að stefnt væri að gjaldtöku í öllum göngum landsins.

Nýja hlutafélaginu verður einnig ætlað að halda utan um fjármögnun svokallaðra samvinnuverkefna en við sögðum í gær frá undirritun verksamnings um það fyrsta, sem er vegagerð um Hornafjörð. Í því verki felst einkafjármögnun og að vegfarendur greiði vegtoll. Samskonar fyrirkomulag verður haft um fimm önnur verkefni en af þeim eru Ölfusárbrú og Axarvegur næst í röðinni.
Þegar gjaldtaka er boðuð í öllum jarðgöngum landsins blasir við að Hvalfjarðargöng yrðu að vera megingjaldstofninn. Þegar skoðuð er meðalumferð á dag sést að Hvalfjarðargöng gnæfa yfir önnur jarðgöng landsins með 7.600 bíla á sólarhring. Umferðin um þau er álíka mikil og um öll hin göngin samanlagt. Rétt er að hafa í huga að Dýrafjarðargöng, neðst á listanum, ná ekki fullu notagildi fyrr en búið verður að endurbyggja leiðina um Dynjandisheiði.

En hvað þyrfti jarðgangagjald að verða hátt?
Í fjármálaáætlun stjórnvalda er því lýst að stjórnvöld vilja ná 25 milljörðum króna af vegfarendum í jarðgangagjöld á 15 árum en það þýðir að fá þarf 1,7 milljarða króna á ári.
Á síðasta heila ári sem rukkað var í Hvalfjarðargöng 2017 fékkst einn og hálfur milljarður króna í veggjöld. Áætlað er að Vaðlaheiðargöng fái 600 milljónir króna í veggjöld á þessu ári, til að gefa hugmynd um stærð tekjustofna í tveimur umferðarmestu göngum landsins.
Sérfróðir menn sem Stöð 2 hefur rætt við telja að ef Hvalfjarðargöng eigi að standa undir helmingi jarðgangatolla megi gróflega áætla að gjald á hvern bíl þyrfti að vera um helmingur af því meðalgjaldi sem innheimt var síðustu árin, sem var milli 500 og 600 krónur. Þegar gjaldtaka hefjist að nýju sé ekki fjarri lagi að áætla að meðaltalsgjald þyrfti að bera á bilinu 250 til 300 krónur hvern á bíl.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: