Franska stórveldið Paris Saint-Germain er meðal þeirra félaga sem þarf að opna veskið. Frönsku meistararnir voru sektaðir um 10 milljónir evra. Sektina fær liðið fyrir að fylgja ekki svokallaðri „break-even“ reglu, en sektin gæti hækkað upp í allt að 65 milljónir evra ef félagið heldur áfram að brjóta af sér.
„Break-even“ reglan felur í sér í stuttu máli að félög mega ekki eyða umfram innkomu og að félögin þurfa að geta sýnt fram á þetta jafnvægi yfir þriggja ára tímabil.
Félögin átta sem fá sekt fyrir að fylgja ekki tilsettum FFP-reglum eru: PSG, AC Milan, Inter, Roma, Juventus, Besiktas, Marseille og Monaco. Samtals munu félögin átta greiða í það minnsta 26 milljónir evra í sektir, en heildartalan gæti hækkað upp í 172 milljónir evra.
Það vekur hins vegar kannski athygli einhverra að spænska stórveldið Barcelona er ekki á þessum lista þrátt fyrir mikil fjárhagsvandræði félagsins og mikla eyðslu í sumar.
Ásamt þessum átta félögum sem hafa verið sektuð hefur UEFA sett 19 önnur félög á lista yfir félög sem verða undir smásjánni á næstu árum. Meðal liða á þeim lista eru Chelsea, Leicester, Manchester City og West Ham.