Skoðun

Vífils­staðir og ó­heilindi ráða­manna

Kristófer Ingi Svavarsson skrifar

I

Þorsteinn sálugi Gylfason heimspekiprófessor var ritfær maður, skýr og skemmtilegur. Þannig fór hann á kostum í inngangi sínum að Birtingi eftir Voltaire, en sú bók er einn af hornsteinum heimsmenningarinnar, eins og alkunna er. Þar rifjar hann upp kynni sín af Eugene V. Rostow, fyrrverandi rektor lagaskólans í Yale og umræðu hans um sannleika og siðferði. Þorsteinn er ekki hrifinn af þeim ummælum rektorsins að siðferði sé afstætt hugtak, það eitt sé rétt sem fólk á hverjum tíma SÆTTI SIG VIÐ. Og bendir á að Voltaire hafi ekki viljað að fólk væri svo auðsveipt. Þau lög ein skyldi setja hverri þjóð sem þjóðin VILDI. Allt annað byði heim sleni og sljóleika sem lygarar í valdastólum nýttu sér út í æsar.

II

Sigurður sálugi Nordal, norrænuprófessor, var ritleikinn maður, skarpvitur og rökfastur. Í ritgerð sem hann nefnir Heilindi ræðir hann meðal annars um þá tvöfeldni sem ríkir í andlegu og veraldlegu líferni Norðurálfumanna. Segja þetta, gera hitt, játa eitt með vörunum, en gera svo allt annað. Sigurður hafði kynnst kínverskum manni sem vakti hann til hugsunar um þetta. Tung Fu hafi verið vitur maður, hugsað allra manna ljósast og fastast. Sálarlíf hans var kannski einhæft, en "hugsun hans og siðaskoðanir stjórnuðu allri breytni hans og mótuðu dagfar hans. Hann var HEILL maður."

III

Leggjum nú augun aftur og lítum í anda liðna tíð, reynum að minnast íslensks valdamanns sem annað hvort hafi unnið í anda Voltaires eða Tung Fu. Einmitt! Hugarflug og ímyndunarafl þarf að virkja til þess arna, staðreyndirnar og raunveruleikinn neita þátttöku.

Þessir þankar urðu til eftir að ég sat þriðja fundinn um hlutskipti og framtíð Vífilsstaða í fyrradag, þriðjudaginn 4. október. Satt best að segja hélt ég ekki að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur myndi ganga svo blygðunarlaust á bak orða sinna! En á fundinum var starfsfólki tilkynnt að samið hefði verið um yfirtöku Heilsuverndar, einkarekins fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu, á rekstri Vífilsstaða.

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs spítalans, mættu sjálf á fundinn til að segja frá þessu og voru sýnilega slegin. Þetta kom flatt upp á alla. Engin útboðsauglýsing hafði verið birt eftir að sú gamla, með ítrekuðum tilboðsfresti, rann út. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur semur sem sé við Heilsuvernd um yfirtöku Vífilsstaða útboðslaust (í einu af þessum frægu reykfylltu bakherbergjum?). Og án nokkurs samráðs við stjórnendur og starfsmenn Landspítalans. Er það löglegt? Eða bara siðlaust?

Þann 16. maí síðastliðinn hafði starfsfólk Vífilsstaða verið boðað á mikilvægan fund í hátíðarsal sjúkrahússins. Þar var tilkynnt, klippt og skorið, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefði ákveðið að bjóða út, eða einkavæða, þá starfsemi sem væri í húsinu. Nýir rekendur tækju við í haust eða um áramót.

Föstudaginn 2. september var svo starfsfólk Vífilsstaða enn boðað á fund um rekstur og framtíð þeirra. Á fundinum var mönnum tjáð að ekkert yrði úr áformum um að bjóða út þá starfsemi sem þar færi fram um „fyrirsjáanlega framtíð“. Engin skýring var gefin á þessari kúvendingu. Í Vísi sagði heilbrigðisráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur svo 6. september að ekkert yrði "úr þessu á þessu ári."

Voru þetta þá ósannindi? Eða óheilindi? En förum varlega með orð; þau geta sprungið/og þó er hitt öllu hættulegra/það getur vöknað í púðrinu. Þess vegna segjum við náttúrlega ekki að neinn hafi logið eða skrökvað, kannski farið óvarlega með sannleikann eða krítað liðugt?

Á þriðja fundinum var svo tilkynnt um kúvendingu númer tvö. Stjórn Landspítalans fengi enga fjóra mánuði til að rýma húsið og flytja sjúklinga burt, eins og heitið hafði verið, heldur rúma tvo. Allir ættu að vera á bak og burt um áramótin. Hvert ættu þeir að fara? 15 kæmust sennilega á nýja öldrunardeild á Landakoti. Hvort hinir 30, allir með "gilt færni- og heilsumat", fengju þá dvalarpláss á hjúkrunarheimili er óvíst. Þeim plássum fjölgar lúshægt!

IV

Ekkert yrði úr þessu á þessu ári? Þessu á öllu að vera lokið fyrir áramót! Fyrsta janúar á allt að vera komið í kring!! Þá hyggst Heilsuvernd vera tilbúin með: A. Almenna líknarþjónustu á legudeild fyrir aldraða sem eru á þeim stað í sjúkdómsferli sínu að allar líkur eru á lífslokum innan 6 mánaða. Þar verða 10 manns. B. Hins vegar er um að ræða bráðaþjónustu fyrir aldraða sem þurfa skyndilega á þjónustu að halda tímabundið vegna breytinga á líðan, félagslegum aðstæðum eða hratt minnkandi færni. Þjónustunni skal ætlað að grípa inn í og fyrirbyggja yfirvofandi eða frekari veikindi. Markmiðið er að þeir geti að meðferð lokinni farið aftur heim.

Sem sagt: Vífilsstaðir verða fyrir þá sem eru við dauðans dyr, eða geta farið heim aftur. Þær þúsundir sem eiga eitthvert líf framundan, en þurfa sólarhrings aðhlynningu, þeir fara burt, bara eitthvað, láta sig bara hverfa!

Þessi mikla breyting krefst vitaskuld nýrra tækja og tóla, ný rúm verða keypt, borð og stólar (Landspítalinn á það sem nú er notað á Vífilsstöðum og er kannski ekki það nýjasta nýtt) og ný áhöfn ráðin til starfa; læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, sjúkraliðar, almennir starfsmenn í aðhlynningu, fólk í býtibúr, fólk í þrif (þeir sem starfa á Vífilsstöðum eru samningbundnir Landspítalanum, obbinn af þeim vill engu breyta um það. Þeir hverfa því burt fyrir áramót.)

Allur þessi mikli fjöldi nýrra starfsmanna þarf þjálfun og aðlögun, það verður því þröng á þingi á Vífilsstöðum næstu vikur, hætt við óðagoti, fumi og æðibunugangi í nóvember og desember. Og hvað um sjúklingana og ættingja þeirra? Bitnar ekki þessi hráskinnsleikur um völd og ágóða á þeim? Kvíðinn og óvissan eru næg þótt þessi fingurbrjótur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur bæti ekki gráu ofan á svart.

Og í guðanna bænum ekki gleyma eldvörnum! Því ekki voru nema nokkrir mánuðir frá því Heilsuvernd tók yfir rekstur á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri að slökkvilið bæjarins gerði alvarlegar athugasemdir við eldvarnir á heimilinu. Samkvæmt RÚV varaði slökkviliðið Akureyrarbæ við yfirvofandi lokun Austurbyggðar 17, húsnæðis hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hlíðar, vegna ófullnægjandi eldvarna.

V

Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, sagði fyrir skemmstu að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu væri markviss, stjórnvöld og pólitíkusar bæru ábyrgð á honum. Magnús Karl kvaðst ekki telja að almenningur endilega áttaði sig á þessari niðurskurðareyðileggingu, hvað þá að hann samþykkti hana.

Er þá ekki mál til komið að almenningur sýni að hann sætti sig ekki við þessa niðurskurðareyðileggingu og setji ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þá kosti að hún vendi sínu kvæði í kross. Taki ákvarðanir í samræmi við ótvíræðan þjóðarvilja, í anda Voltaires!

Og losi sig við þá sem leika tveim skjöldum; látast þjóna almenningi en makka sýknt og heilagt við gróðaöflin um heill fólks og heilsu. Skipi þá í æðstu embætti sem vinni af heilindum, heila menn, karla og konur!

Höfundur er trúnaðarmaður Sameykis á Vífilsstöðum.




Skoðun

Sjá meira


×