Innlent

Strengur í hjarta Reykja­víkur úti vegna álags

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Rafmagnsleysi hefur verið óvenju títt í miðborginni og Vesturbænum upp á síðkastið.
Rafmagnsleysi hefur verið óvenju títt í miðborginni og Vesturbænum upp á síðkastið. vísir/vilhelm

Bygginga­fram­kvæmdir og þétting byggðar í Reykja­vík hafa valdið víð­tækum raf­magns­truflunum síðustu vikur. For­stöðu­maður hjá Veitum segir að auka þurfi sam­starf við verk­taka svo raf­magns­bilanir verði ekki al­gengari sam­hliða aukinni upp­byggingu.

Víð­tækt raf­magns­leysi varð í stórum hluta mið­bæjar og Vestur­bæjar síð­degis í gær.

Þetta olli miklu raski á starf­semi búða og veitinga­staða sem lá niðri á meðan raf­magnið var úti.

Þetta er í þriðja skiptið á fá­einum vikum sem raf­magns­laust verður á hluta svæðisins, vegna bilana í strengjum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kíktum við inn í helstu frá­veitu­stöð mið­bæjarins, „hjarta Reykja­víkur“ eins og for­stöðu­maður Veitna kallar hana, og litum á strenginn sem sló út í gær.

„Það var ansi mikið undir á þessum rofa í gær og hann leysir út vegna bilunar í strengs, sem liggur frá þessari af­veitu­stöð yfir í Póst­hús­stræti 1. Og það var ó­venju­lega mikið á þessum rofa í gær því við erum með strengi úti út af verk­efnum vestur í bæ sem tengjast þéttingu byggðar,“ segir Jóhannes Þor­leiks­son, for­stöðu­maður Raf­veitu hjá Veitum.

Til að ein­falda; hætta hefur þurft notkun á nokkrum strengjum sem leiða raf­magn í Vestur­bæinn vegna bygginga­fram­kvæmda þar, svo ekki skapist hætta fyrir iðnaðar­menn. Þá eykst á­lagið á aðra strengi og varð það of mikið í gær á strengnum sem leiðir að Póst­hús­stræti.

Jóhannes segir ekki verið að byggja of mikið í borginni en auka verði samskipti Veitna og byggingaraðila.vísir/óttar

Hálfgerð sprenging og húsin hristust

Bygginga­fram­kvæmdir hafa verið helsta or­sök raf­magns­leysis hjá Veitum upp á síð­kastið.

„Reynslan hefur sýnt okkur það að truflanir verða gjarnan vegna jarð­vinnu ná­lægt strengjum. Hvort sem það eru hús­byggingar eða aðrar fram­kvæmdir,“ segir Jóhannes.

Eru byggingar­verk­takar þá að grafa alveg niður að strengnum?

„Það er mis­munandi hvernig það verður. Eins og ný­legt dæmi hérna ná­lægt þessari að­veitu­stöð, þá var bara grafið í streng. Þá hristust bara húsin í kring, það varð svona hálf­gerð sprenging. Svo er bara verið að kroppa í lagnirnar, kannski að­eins verið að rekast í þær og þá yfir tíma gefa þær sig.“

Jóhannes er þó ekki á því að hér sé verið að byggja of mikið of hratt fyrir kerfið.

„Ég myndi ekki segja að það sé endi­lega vera byggja of mikið en það auð­vitað kallar á aukið sam­starf og við þurfum að vinna betur saman þvert á til að geta komið í veg fyrir að svona skemmdir verði á lögnum í jörðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×