
Bretar ásamt Bandaríkjamönnum hafa farið fremstir í stuðningi sínum við Úkraínu eftir ólöglega innrás Rússa, bæði hernaðrlega og efnahagslega. Eitt af fyrstu verkum Rishi Sunaks eftir að hann varð forsætisráðherra Bretlands í gær var að ræða við Volodymyr Zelenskyy forseta Úkraínu í síma. Zelenskyy bauð forsætisráðherranum í heimsókn við fyrsta tækifæri.
„Ég tel að samstarf þjóða okkar og forysta Breta í vörnum fyrir lýðræði og frelsi muni halda áfram að styrkjast,“ sagði Zelenskyy í reglulegu kvöldávarpi sínu í gær. Þjóðirnar hefðu náð mjög vel saman hingað til og svigrúm væri til að bæta samstarf þeirra enn frekar báðum þjóðum til hagsbóta.

Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands heimsótti Kænugarð í gær og átti fund með Zelenskyy. Hann þakkaði Úkraínuforseta á sameiginlegum fréttamannafundi fyrir að fá tækifæri til að kynna sér aðstæður frá fyrstu hendi.
„Ég er fullur einlægrar aðdáunar á hughrekki, fórnfýsi og þrá Úkraínumanna eftir frelsi,“ sagði forseti Þýskalands. Hann hét Úkraínumönnum auknum hernaðarlegum stuðningi. Á næstu dögum fengju þeir MARS 2 eldflaugakerfi og fjóra howitzers eldflaugabíla frá Þýskalandi.
Rússar halda áfram áróðri sínum um að Úkraínumenn séu að undirbúa svo kallaðar skítuga sprengju með geislavirkum efnum. Það gæti bent til að Rússar sjálfir séu að því, þar sem þeir byrja yfirleitt á að saka andstæðinginn um það sem þeir ætla að gera sjálfir áður en þeir gera það.

Pat Ryder talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir þessar áskanir tilhæfulausar.
„Frá okkar sjónarhóli eru það algerar falsfréttir að Úkraína sé að smíða skítuga sprengju. Þá höfum við ekki séð neinar vísbendingar um að Rússar hafi ákveðið eða ætli sér að nota kjarnorkuvopn eða skítasprengjur. Við fylgjumst hins vegar náið með þróun mála,“ sagði Ryder.