Innlent

Um tuttugu grímu­klæddir menn réðust inn á klúbbinn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Árásin átti sér stað á Bankastræti Club í gærkvöldi.
Árásin átti sér stað á Bankastræti Club í gærkvöldi. vísir/vilhelm

Lög­regla úti­lokar ekki að fleiri verði hand­teknir í dag í tengslum við al­var­lega hnífs­tungu­á­rás gegn þremur mönnum á skemmti­staðnum Banka­stræti Club í gær­kvöldi. Talið er að hátt í tuttugu grímu­klæddir menn hafi ráðist inn á staðinn.

Fjórir hafa verið hand­teknir í tengslum við málið en ekki hefur verið tekin á­kvörðun um hvort farið verði fram á gæslu­varð­hald yfir þeim að sögn Margeirs Sveins­sonar, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjóns hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu.

„Við teljum að þarna hafi verið hátt í tuttugu til tuttugu og fimm manns sem þarna áttu hlut að þessari árás og inn­göngu inn á skemmti­staðinn,“ segir Margeir. Þar af hafi um tuttugu farið inn á staðinn.

Og þeir voru allir grímu­klæddir?

„Já, allir sem fóru inn á þennan skemmti­stað voru grímu­klæddir.“

Hnífaárásir færast í aukana

Margeir segir rann­sókn málsins á frum­stigi. „Og það er ó­mögu­legt að segja hversu marga við náum í í dag eða hvort það verði fleiri hand­teknir. Við erum bara svona að átta okkur á um­fanginu.“

Lögreglukonur með sjúkabörur á vettvangi í gærkvöldi.aðsend

Rann­sókn málsins er nú í for­gangi hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu en farið var í um­fangs­miklar hús­leitir og hand­töku­að­gerðir eftir á­rásina í gær­kvöldi. Við þær að­gerðir vopnaðist lög­regla og naut að­stoðar sér­sveitarinnar.

„Við erum náttúru­lega alltaf að reyna að gæta fyllsta öryggis og við erum að fást þarna við menn sem eru að beita þessum vopnum. Hnífar eru stór­hættu­leg vopn og menn beita þessu ó­spart orðið, að okkur sýnist. Og við reynum bara að gæta fyllsta öryggis,“ segir Margeir.

Óvenju margir í árásinni

Mennirnir sem eru grunaðir um að hafa tekið þátt í á­rásinni eru í kring um tví­tugt og upp úr.

Sér­stak­lega er til skoðunar hvort á­rásin tengist upp­gjöri eða hefndar­að­gerðum en Margeir vill ekki fara nánar úr í það. Á­rásin hafi að mörgu leyti verið ó­venju­leg.

„Þetta er náttúru­lega ekki nýtt svo sem að við séum að fást við hnífa­á­rásir hérna í mið­bænum en að það sé svona mikill fjöldi og það virðist sem þetta sé gert með svona skipu­legum hætti – það er alveg nýtt fyrir okkur,“ segir Margeir.

Mennirnir þrír sem ráðist var á í gær hlutu allir stungu­sár og voru fluttir á bráða­deild í gær. Enginn þeirra er í lífs­hættu að sögn Margeirs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×